Breytingar á grenndarstöðvum

Sorphirða

Grenndarstöð af nýjustu gerð með djúpgámum við Laugalæk.
Grenndarstöð með djúpgámum við Laugalæk.

Nú hefur nýtt og samræmt flokkunarkerfi fyrir heimilissorp verið innleitt á höfuðborgarsvæðinu. Nýja kerfinu fylgja breytingar á grenndarstöðvum, sem verða innleiddar í áföngum og er fjölgun málmagáma stærsta breytingin. Alls eru 58 grenndarstöðvar í Reykjavík með samtals 255 gámum.

Með nýju flokkunarkerfi flokka íbúar heimilisúrgang í fleiri flokka en áður en sveitarfélögum er skylt að safna pappír, plasti, matarleifum og blönduðum úrgangi við hvert heimili.

Fjöldi málmagáma meira en tvöfaldast

Eftir að byrjað var að sækja pappír og plast við öll heimili minnkar þörfin fyrir grenndargáma, sem taka við þeim flokkum. Samhliða þessum breytingum er skylt að flokka gler og málma og því verður gámum sem taka við þessum flokkum fjölgað um meira en helming, eða úr 13 í 29 fyrir áramót. Málmarnir mega ekki lengur fara lausir í gráu tunnuna eins og áður var leyfilegt.

Breytingar í vændum

Á næstu vikum munu þessar grenndarstöðvar fá ný hlutverk og byrja að taka á móti gleri og málmum í stað plasts og pappírs:

 • Smárakirkja í Hamrahverfi
 • Víkurskóli
 • Norðlingabraut við Bros boli
 • JL húsið
 • Einarsnes
 • Maríubakki

Búið að breyta

Þessum stöðvum hefur þegar verið breytt og taka nú við málmum og gleri í stað pappírs og plasts:

 • Holtagarðar
 • Orrahólar

Þessar fá viðbót

Á þessar stöðvar bætist við málmagámur:

 • Sogavegur
 • Háaleitisbraut
 • Vesturbæjarlaug
 • Spöng
 • Klambratún
 • Suðurfell
 • Þjóðhildarstígur
 • Klambratún
 • Barðastaðir

Frekari breytingar framundan

Merkingakerfi fyrir grenndargáma verður á næsta ári samræmt við nýjar merkingar á heimilisflokkun, og verður merkingin eins og límmiðarnir á tunnunum við heimili fólks. Á sama tíma verða settir upp skynjarar í alla grenndargáma, sem segja til um hvenær gámarnir eru fullir. Þá verður ný stöð sett upp til reynslu í Gufunesi fyrir málma og gler. Í framhaldinu verður grenndarstöðvum, sem taka við málmum fjölgað enn frekar og tekið við málmum og gleri á öllum stöðvum grenndarstöðvum borgarinnar.

Lagt er upp með að grenndarstöðvar með málmum, gleri og textíl séu alltaf í mesta lagi í 500 metra radíus frá heimili þar sem því er við komið. Stærri stöðvar sem taka einnig við pappír og plasti verða í eins kílómetra radíus frá heimilum.

Takk fyrir að flokka!