Breytingar á gjaldskyldu bílastæða taka gildi

Bílastæðasjóður

Breytingar á gjaldskyldu taka gildi 1. október. Arctic Images/Ragnar Th.
Bílastæðamælir

Breytingar á gjaldskyldu og gjaldskrá bílastæða Reykjavíkurborgar taka gildi um mánaðamótin. Unnið verður að því í dag og á morgun að breyta tæplega 300 skiltum í borginni en verðið sjálft tekur ekki breytingum fyrr en sunnudaginn 1. október hvort sem greitt er í gegnum mæla, öpp eða vef.

Yfirlit yfir breytingarnar

  • Gjaldskyldutími á gjaldsvæðum P1 og P2 verður lengdur til klukkan 21, bæði á virkum dögum og á laugardögum.
  • Hámarkstími á gjaldsvæði 1 verður þrjár klukkustundir.
  • Að auki verður tekin upp gjaldskylda á gjaldsvæðum P1 og P2 á milli klukkan 10 og 21 á sunnudögum.
  • Gjaldskyldutími á gjaldsvæði 3 verður 9-18 virka daga.

Handhafar stæðiskorts hreyfihamlaðra leggja gjaldfrjálst í bílastæði hvort sem þau eru merkt hreyfihömluðum eða ekki og gildir hámarkstími á gjaldsvæði P1 ekki fyrir þá.

Styður við þjónustuaðila, gesti og íbúa

Gjaldskylda á bílastæðum Reykjavíkur hefur þann tilgang að framfylgja markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur og stuðla að fjölbreyttri notkun bílastæða í borgarlandi með því að stýra eftirspurn eftir bílastæðum og styðja þannig við þjónustuaðila, gesti og íbúa.

Borgarráð samþykkti þessa tillögu að breytingum á gjaldskyldu fyrir bílastæði Reykjavíkurborgar í sumar og var greint frá fyrirhuguðum breytingum í ítarlegri frétt um málið í lok júní.