No translated content text
Borgarráð er stolt af samtarfi við Samtökin 78 þegar kemur að hinsegin fræðslu sem og af Jafnréttisskólanum og öðru starfsfólki borgarinnar sem kemur að fræðslu um jafnréttismenntun, mannréttindi og kynheilbrigði. Hatursorðræða er litin alvarlegum augum. Þetta kemur fram í þverpólitískri bókun sem borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum lagði fram á fundi sínum í gær.
Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið varðandi hinsegin fræðslu og kynfræðslu í grunnskólum. Kynning á fræðslunni fór fram á fundi borgarráðs í gær og lagði borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum fram svohljóðandi bókun í þverpólitískri sátt:
„Fordómar og ofbeldi eiga ekki heima í okkar samfélagi. Meginmarkmið menntastefnu Reykjavíkurborgar er að „öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs.“ Við náum þeim markmiðum m.a. með fræðslu um kynlíf, kynhneigð og sjálfseflingu. Það er ljóst að framboð af efni sem getur haft neikvæð áhrif á börn er mikið og aðgengi að því hefur aukist verulega með tilkomu internetsins. Það er hlutverk góðs skólakerfis að hjálpa börnum að meta sjálf þær upplýsingar sem þeim berast. Það er því mikilvægt að börn geti fengið bæði kynfræðslu og upplýsingar um hinsegin málefni á yfirvegaðan hátt í gegnum skólakerfið. Reynslan sýnir að slík fræðsla leiðir til þess að börn læri að setja mörk og hefur leitt til þess að þau hafa stigið fram og sagt frá ofbeldi. Samtökin ‚78 sjá um hinsegin fræðslu í skólum borgarinnar í samstarfi við Reykjavíkurborg en að gefnu tilefni má ítreka að samtökin koma ekki að kynfræðslu. Unnið er að gerð námsefnisins af mikilli fagmennsku og virðingu. Það er vel ígrundað hvernig að fræðslunni er staðið og er allt efni sniðið að þeim aldri sem því er ætlað að ná til. Borgarráð er stolt af samstarfinu við Samtökin ‚78 þegar kemur að hinsegin fræðslu og af Jafnréttisskólanum og öðru starfsfólki borgarinnar sem kemur að fræðslu um jafnréttismenntun, mannréttindi og kynheilbrigði. Við lítum hatursorðræðu alvarlegum augum og viljum að börn okkar læri umburðarlyndi og sjálfseflingu.“