Vegna umræðu um kynfræðslu og hinseginfræðslu

Skóli og frístund

Reykjavíkurborg og hinseginleikinn

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið varðandi hinsegin fræðslu og kynfræðslu í grunnskólum. Borið hefur á því að villandi og oft röngum upplýsingum sé dreift um samfélagsmiðla, námsefni tekið úr samhengi og því stillt upp á vafasaman hátt. Því er fullt tilefni til að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Samkvæmt íslenskum lögum, aðalnámskrá grunnskóla, samþykktum þingsályktunum og alþjóðlegum samningum eru íslensk stjórnvöld skuldbundin að tryggja fræðslu um kynheilbrigði, mannréttindi og kynjajafnrétti í skólakerfinu. Undir það fellur meðal annars kynfræðsla, fræðsla um hinsegin málefni, ofbeldisforvarnir og fræðsla um fordóma og mismunun. Það þýðir að nemendur eiga rétt á fá slíka fræðslu og að hafa gott aðgengi að viðurkenndum upplýsingum sem málefnin varða. Að gefnu tilefni er einnig vert að minna á að á Íslandi eru lög um kynrænt sjálfræði nr.80 (2019) og kveða þau lög á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt og miða lögin þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar.

Um hinseginfræðslu:

Hinseginfræðsla er EKKI kynfræðsla. Slík fræðsla byggir á því að fjalla um fjölbreytileikann, virðingu og mikilvægi þess að vinna gegn fordómum.

Í stuttu máli má segja að á yngsta stigi sé fjallað um að fólk sé allskonar og fjölskyldur séu allskonar og það sé í góðu lagi. Á miðstigi er útskýring á hugtökum eins og samkynhneigð, tvíkynhneigð, trans og intersex og áhersla lögð á að allt fólk á rétt á búa við öryggi og virðingu. Á unglingastigi er aftur rætt um hugtök, bent á hvar ráðgjöf og stuðning er að finna auk þess sem umræða um fordóma og virðingu er sett í forgrunn.

Að gefnu tilefni skal taka fram að fræðsla um BDSM fer EKKI fram í fyrirlestrum eða öðru kennsluefni um hinsegin mál, hvorki með börnum né unglingum. Um eina setningu er að ræða á einu veggspjaldi sem útbúið var árið 2019 og er tilurð hennar betur útskýrð.

Hinseginfræðsla er EKKI kynfræðsla.

Um kynfræðslu:

Kynfræðsla snýst um að efla kynheilbrigði ungs fólks þar sem rýnt er í félagslega, tilfinningalega, líkamlega og andlega þætti. Kynfræðsla veitir ungu fólki þekkingu sem er mikilvæg varðandi kynheilbrigði einstaklinga svo sem að þekkja einkenni kynþroskans, að kunna að setja og virða mörk, að rýna í kynhlutverk, kynvitund og kynhneigðir, að eiga í heilbrigðum samskiptum og samböndum, að þekkja tilfinningar sínar og geta orðað þær upphátt, að þekkja líkama sinn, vonir og væntingar, að sýna ábyrgð í kynlífi svo sem með því að forðast kynsjúkdómasmit eða óráðgerðar þunganir og fjölmargt fleira.

Bókin Kyn, kynlíf og allt hitt er hluti af fræðslu ætluð yngsta- og miðstigi. Bókin er mikilvægur leiðarvísir um líkama, kyn og kynverund fyrir börn. Hún veitir nauðsynlegan grunn í kynfræðslu og býður þar að auki upp á samræður milli nemenda og kennara og gerir öllum kleift að koma á framfæri skoðunum sínum og upplifunum um leið og frætt er um virðingu, mörk, öryggi og ánægju. Við mælum með að fólk lesi bókina frá upphafi til enda til að sjá heildarmyndina og minnum í leiðinni á að hlutar bókarinnar eru notaðir í fræðslu með tilliti til aldurs og þroska nemenda. 

Lengi hefur mikil umræða verið í samfélaginu um mikilvægi þess að auka markvissa kynfræðslu. Tölur um kynferðislega áreitni og ofbeldi eru alltof háar og er góð fræðsla besta forvörnin. Ungt fólk hefur einnig ítrekað óskað eftir því að fá betri og markvissari kynfræðslu í skólakerfinu og hefur ýmislegt verið gert til að koma til móts við þær óskir. Misjafnt er á milli skóla og félagsmiðstöðva hvernig kynfræðslu er háttað og hver sinnir henni. Ávallt er farsæld og velferð barna og unglinga höfð að leiðarljósi og reynt að mæta hverjum hópi og einstaklingi þar sem hann er staddur, út frá aldri og þroska.

Unglingum finnst mikilvægt að foreldrar séu styrktir í því að ræða um kynlíf og sambönd við börnin sín.

Unglingar velja þema Viku6

Vika6 er svo árlegt kynheilbrigðisátak, sjötta vika hvers árs sem tileinkuð er kynheilbrigði. Unnið er með eitt þema á hverju ári og kjósa unglingar um þemað hverju sinni. Haldinn er lýðræðisfundur með unglingum úr öllum skólum Reykjavíkur þar sem þeim gefst tækifæri til að setja fram sínar væntingar til Viku6 og hafa áhrif á þær áherslur sem settar eru fram hverju sinni. Unglingar hafa á þessum fundum bent á mikilvægi þess að styrkja foreldra í því að ræða um kynlíf og sambönd við börnin sín. Af því tilefni hafa þrír opnir rafrænir fræðslufundir verið í boði fyrir foreldra þar sem kynnt var hvað felst í kynfræðslu, hvernig hún fer fram og af hverju Vika6 er mikilvæg. Boðið er upp á fjölbreytt kennsluefni, leiki, spurningar, hópastarf, myndbönd og fræðsluveggspjöld.

Mikið hefur borið á því að hluti efnisins er tekinn úr samhengi og dreift áfram á villandi hátt og á það sérstaklega við um teikningar veggspjaldanna. Rétt er að taka fram að veggspjöldin eru framleidd fyrir unglinga og eru þau sérstaklega hönnuð út frá niðurstöðum unglingafundanna. Veggspjöldin eru kynnt samhliða annarri fræðslu. Börn eru gjarnan útsett fyrir klámi og er veggspjöldunum ætlað að veita þeim upplýsingar og vera forvörn gegn áreitni og ofbeldi.