Borgarbúar ánægðir með sundlaugar og menningarstofnanir í Reykjavík

Mannlíf Íþróttir og útivist

""

Íbúar Reykjavíkur eru ánægðastir með þjónustu menningarstofnana í borginni, eða rúmlega 85% aðspurðra í könnun Maskínu á þjónustu Reykjavíkurborgar.

 Samkvæmt könnuninni er aðeins meiri ánægja með þjónustu borgarinnar nú miðað við samskonar könnun sem gerð var í fyrra.

Sundlaugarnar skora enn fremur mjög hátt en um 86 prósent eru ánægðir með þjónustu þeirra. Þjónusta velferðarsviðs fær góða einkunn borgarbúa, en um sex af hverjum tíu voru ánægðir með þjónustuna. Þá eru sjö af hverjum tíu ánægðir með viðmót starfsfólks velferðarsviðs.

Þessar niðurstöður byggja á reynslu þeirra sem svara könnuninni, en mikil ánægja er með flesta þjónustu borgarinnar sem notendur þekkja af eigin raun.

Opin svæði í borginni fá góða einkunn en sex af tíu er ánægðir með þau. Þjónustuver Reykjavíkurborgar fær einnig góða einkunn en átta af hverjum tíu sem hafa fengið þjónustu þar eru ánægðir með þjónustuna.

Sjö af hverjum tíu eru ánægðir með Mínar síður á Rafrænu Reykjavík og sex af hverjum tíu ánægðir með heimasíðu Reykjavíkurborgar reykjavik.is en þar er aðgengi að allri þjónustu borgarinnar auk frétta, fjármála, viðburða auk mælaborðs borgarbúa.

Samkvæmt könnuninni telja aðspurðir að umhirða og þrif borgarlandsins megi vera betri.  Þannig eru aðeins tæp 24,5% svarenda ánægðir með hreinsun á lausu rusli í hverfinu sínu og nær 52%  óánægðir.

Maskína kannaði jafnframt viðhorf til þjónustu sem gæti orðið að veruleika innan tíðar. Þannig var til dæmis spurt um hvort fólk myndi nýta sér tunnu undir lífrænan úrgang og sögðust 77% vera líklegir til að nýta sér slíkt ílát væri það í boði.  Þá var matarsóun á heimilum könnuð og er hún of mikil samkvæmt svörunum.

Fólk á aldrinum 18 – 49 er ánægt með þjónustu Reykjavíkurborgar en íbúar á aldrinum 30-39 ára eru ánægðastir eða tæp 53 prósent. 

Könnun Maskínu um þjónustu Reykjavíkurborgar