Áramótin í Reykjavík

Svifryksmengun vegna flugelda er bæði varasöm og heilsuspillandi. Flugeldum fylgir líka rusl. Arctic Images/Ragnar Th.
Flugeldar við Hallgrímskirkju.

Nokkrar líkur eru á svifryksmengun fyrstu klukkustundir ársins 2023 vegna mengunar frá flugeldum og búast má við því að styrkurinn verði yfir heilsuverndarmörkum. Svifryksmengun vegna flugelda er bæði varasöm og heilsuspillandi. Flugeldum fylgir líka rusl, sem þarf að koma á réttan stað, annað hvort á endurvinnslustöðvar Sorpu eða hverfastöðvar Reykjavíkurborgar en það er nýjung í ár að þær taki á móti flugeldaleifum.

Á undanförnum árum hafa verið flutt inn um 600 tonn af skoteldum á hverju ári og er árið í ár engin undantekning. Höfundar skýrslunnar Mengun af völdum skotelda skrifa „Starfshópurinn var sammála um að sú mengun sem oft verður um áramótin af völdum skotelda hefur óæskileg áhrif á heilsu margra einstaklinga, sérstaklega þeirra sem eru með undirliggjandi heilsufarsvandamál.“

Sýnum aðgát og hugum að börnum og dýrum

Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að sýna aðgát og huga að börnum og dýrum ásamt því að ganga rétt frá flugeldarusli. Hægt er að draga úr fjölda flugelda með því að kaupa rótarskot Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Rótarskotið er ágætur valkostur fyrir þá sem vilja styrkja starf björgunarsveitanna án þess að kaupa flugelda. Fyrir rótarskotin gróðursetur skógræktarfélagið trjáplöntur um land allt næsta sumar sem stuðlar að betri loftgæðum og dregur úr gróðurhúsaáhrifum. 

Flugeldanotkun almennings er mikil á Íslandi og hefur henni fylgt nokkur slysatíðni. Síðasta áratug hefur 21 einstaklingur slasast og einn hlotið varanlegt heilsutjón að meðaltali á hverju einasta ári vegna flugeldanotkunar á höfuðborgarsvæðinu. 

Hávaði vegna flugelda verður oft mikill, sérstaklega frá stórum skotkökum og því eru gæludýraeigendur í borginni hvattir til að huga vel að dýrum sínum. Best er að halda köttum inni dagana í kringum áramót og hafa hunda ávallt í ól þegar þeim er hleypt út, þó það sé aðeins út í garð.

Fylgjumst með veðurspá

Spáð er vaxandi suðaustanátt í nótt, 10-15 og snjókomu undir morgun. Hægari og él nálægt hádegi, frost 2 til 6 stig seinnipartinn. Á gamlársdagsmorgun er útlit fyrir allhvassa suðaustanátt sunnan- og vestantil á landinu með snjókomu og skafrenningi. Það eru því líkur á að færð spillist.  Í dag verður hins vegar rólegt veður víðast hvar og er fólk hvatt til að nýta daginn til að klára að útrétta fyrir áramótin. Í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands kemur fram að nýja árið heilsi líklega með vestanátt og éljum. Hægt er að fylgjast með veðurspánni á Vedur.is.

Áramótabrennur

Tíu áramótabrennur verða í Reykjavík. Fyrir hádegi á gamlársdag er veðurspá skoðuð og ákvörðun tekin um hvort það megi tendra um kvöldið. Brennur eru ekki tendraðar ef vindhraði fer yfir 10 m/s.

Fyrsti svifryksdagur ársins?

Miðað við undanfarin ár gæti 1. janúar 2023 orðið fyrsti svifryksdagur ársins vegna mengunar frá skoteldum. Heilsuverndarmörkin á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á loftgæði.is 

Loftgæðamælistöðvar sem mæla svifryk í Reykjavík eru staðsettar við Grensásveg, leikskólann Lund við Klepp, í Laugarnesi og við Vesturbæjarlaug.

Fólk með viðkvæm öndunarfæri, hjarta- og æðasjúkdóma og börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir svifryki. Æskilegast er fyrir þennan hóp að vera innandyra þegar mest gengur á í kringum um miðnættið og loka gluggum. 

Gleðilegt nýtt hreint ár

Eftir áramótin má oft finna flugeldarusl víða um borg. Mikilvægt er að koma þessu rusli á sinn stað áður en það brotnar niður og verður að drullu. Þó svo að flugeldar séu úr pappa, þá er notaður leir í botninn sem gerir það að verkum að pappinn sem eftir verður er ekki hæfur til endurvinnslu. Flugeldarusli á að skila á endurvinnslustöðvar SORPU. Það á ekki að fara í almennu ruslatunnuna. Sama gildir með ósprungna flugelda, þeir eiga að fara í spilliefnagáminn.

Sérstakir gámar fyrir flugeldarusl á hverfastöðvum hjá Reykjavíkurborg

Nýjung í ár er að hverfastöðvar Reykjavíkurborgar koma einnig til með að taka á móti flugeldarusli á neðangreindum tímum:

  • 1. janúar: 12:00-16:00
  • 2. janúar: 08:00-16:00
  • 2. janúar: 08:00-16:00

Gámar fyrir flugeldarusl verða staðsettir á:

Hreinsun borgarlandsins er kostnaðarsöm og eru borgarbúar því eindregið hvattir til að láta ekki sitt eftir liggja og safna saman því mikla magni af flugeldaleifum sem fellur til eftir sprengingar áramótanna. Reykjavíkurborg vill minna borgarbúa og gesti á að taka flugeldaleifarnar með sér, ganga frá þeim daginn eftir og fara með til förgunar.

Meginatriði er að fara gætilega, passa börnin, nota hanska og hlífðargleraugu og njóta stundarinnar á öruggan hátt.