Ævintýraborgir út um alla borg

Skóli og frístund

""

340 ný leikskólapláss verða til  í fjórum nýjum leikskólum í borginni.

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í dag að setja á fót nýja leikskóla við Eggertsgötu, Nauthólsveg, Barónsstíg og í Vogabyggð. Leikskólarnir verða svokallaðar ævintýraborgir í færanlegu húsnæði sem hæfir vel nútíma leikskólastarfi og kröfum um góðan aðbúnað barna og starfsfólks. Borgarráð hefur áður samþykkt að setja á fót færanleg húsnæði á fyrrnefndum fjórum stöðum í borginni fyrir ævintýraborgir og kemur samþykkt skóla- og frístundaráðs í framhaldi af þeim ákvörðunum borgarráðs.

Þessir fjórir nýju leikskólar munu geta tekið á móti um 340 börnum og er stefnt að því að þeir opni á tímabilinu nóvember 2021 til mars 2022. 

Opnun nýrra leikskóla er liður í aðgerðaráætluninni Brúum bilið sem hefur að markmiði að fjölga leikskólarýmum í Reykjavík svo bjóða megi börnum leikskólapláss þegar 12 mánaða fæðingarorlofi sleppir. Aðgerðaáætlunin var samþykkt í borgarstjórn fyrir tæpum tveimur árum og felur í sér byggingu nýrra leikskóla, viðbyggingar við starfandi leikskóla og viðbótardeildir í færanlegu húsnæði. Þá er fjölgað rýmum í sjálfstætt reknum leikskólum.

Fleiri leikskólapláss en áætlað í upphafi
Alls var gert ráð fyrir því í aðgerðaráætluninni Brúum bilið að leikskólarýmum yrði fjölgað um 700-750 fyrir lok árs 2023. Nú liggur fyrir að leikskólarýmum mun fjölga meira, m.a. til að mæta fólksfjölgun í borginni og vaxandi þörf ungbarnafjölskyldna.

Áætlaður opnunartími nýrra ævintýraborga
Stefnt er að opnun í nóvember 2021 í ævintýraborg við Eggertsgötu með rými fyrir a.m.k. 80 börn á aldrinum 12 mánaða til 6 ára.
Stefnt er að opnun í desember 2021 í ævintýraborg við Nauthólsveg með rými fyrir um 100 börn á aldrinum 12 mánaða til 6 ára.  
Stefnt er að opnun í febrúar 2022 í ævintýraborg á lóð Vörðuskóla við Barónsstíg 34 með rými fyrir um 60 börn á aldrinum 12 mánaða til 3 ára.  
Stefnt er að opnun í mars 2022 í ævintýraborgar við Vogabyggð 5 með rými fyrir um 100 börn á aldrinum 12 mánaða til 6 ára.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir foreldra fyrir börn sín inn í alla þessa nýju leikskóla.