Aðstæður dagforeldra bættar - „Ef fólk elskar börn er þetta draumastarf“
Skóli og frístund
Stofnstyrkir til dagforeldra verða hækkaðir, árlegur aðstöðustyrkur verður í boði og heimilt verður að gera þjónustusamninga við dagforeldra sem kveða á um niðurgreiðslur vegna barna í daggæslu með lögheimili í Reykjavík. Þá verður endurmenntun bætt og aðgengi að leiguhúsnæði fyrir starfsemi dagforeldra aukið. Þetta kemur fram í tillögum sem borgarráð samþykkti í dag.
Leitað hefur verið leiða til að fjölga dagforeldrum í Reykjavík og brugðið á það ráð að auglýsa eftir nýjum dagforeldrum. Samkvæmt tillögunum sem samþykktar voru í dag fá dagforeldrar sem hefja starfsemi í Reykjavík stofnstyrk upp á eina milljón króna. Greiddar verða 250 þúsund krónur við undirritun þjónustusamnings en 750 þúsund krónur ári síðar. Þá verður settur á árlegur aðstöðustyrkur til dagforeldra í Reykjavík upp á 150 þúsund krónur, sem tekur gildi eftir tvö ár í starfi auk þess sem Reykjavíkurborg mun skipuleggja og greiða fyrir slysavarnanámskeið á tveggja ára fresti fyrir alla dagforeldra. Einnig fela tillögurnar í sér að þegar barn nær 18 mánaða aldri greiða foreldrar til dagforeldris sama gjald og í leikskóla Reykjavíkurborgar.
Reykjavíkurborg mun að auki auglýsa eftir hentugu húsnæði sem dagforeldrar geta leigt saman tveir og tveir. Sem dæmi um hentugt húsnæði mætti nefna færanlegar einingar á eldri gæsluvöllum, auð verslunarrými á jarðhæð fjölbýlishúsa og auð gæsluvallarhús.
Kom til Íslands sem au pair en hefur nú verið hér í 20 ár
Við Arnarbakka í Breiðholti er einmitt gæsluvallarhús sem stóð autt í nokkur ár en þar hafa tveir dagforeldrar, hjónin Halyna Halapats og Andrii Khomenskyi, komið sér vel fyrir með frábæra aðstöðu. „Við erum mjög ánægð og þetta húsnæði hentar okkur vel. Við höfum góða útiaðstöðu og getum verið með börnin úti tvisvar á dag,“ segir Halyna, en þau hjónin unnu áður sem dagforeldrar heima hjá sér. „Það hentaði ekki nógu vel, til dæmis af því við eigum sjálf börn og við búum á þriðju hæð. Ég var alltaf að horfa inn um gluggana á þessu húsnæði og bað Reykjavíkurborg um að fá að nota þetta húsnæði. Það gekk upp árið 2019 svo nú höfum við verið hér í fjögur ár,“ bætir hún ánægð við.
Það er líf og fjör þegar þau Halyna og Andrii eru heimsótt ásamt börnunum tíu sem eru hjá þeim á virkum dögum. Halyna syngur fallegar íslenskar barnagælur á meðan börnin reyna að ná litríkum sápukúlum sem Andrii blæs úr vél. „Við erum frá Úkraínu en ég hef verið á Íslandi í 20 ár og Andrii í tíu ár,“ segir Halyna. „Ég kom til Íslands sem au pair en ílengdist og hóf störf á leikskóla en nú hef ég verið dagforeldri í níu ár. Andrii leysti mig af í fæðingarorlofum og veikindum og eftir að yngsta dóttir okkar fæddist ákváðum við að vinna saman. Við erum alltaf saman svo það er gott að hafa vinnustað utan heimilisins og svo eru börnin okkar í Breiðholtsskóla, rétt við vinnustað okkar.“
„Ég mæli heils hugar með þessu“
Það geislar af Halynu þegar hún talar um starfið. „Mér finnst þetta ekki vera starf,“ segir hún raunar ákveðin. „Við hér erum fjölskylda og ég elska að hugsa um öll börnin mín, bæði heima og hér í vinnunni. Ég mæli heils hugar með þessu. Ef fólk elskar börn og líkar vel að vera með þeim, kenna þeim og leika við þau, þá er þetta draumastarf. Það getur verið erfitt að byrja og maður er smá tíma að aðlagast starfinu, en það á við um svo margt og svo fer allt að ganga vel. Ég hvet fólk til að hika ekki við að prófa þetta.“
Gott að finna fyrir trausti
En hvað skyldi henni finnast best við að vera dagforeldri? „Það er að kynnast þessu litla fólki. Sjá hvernig börnin þroskast, sjá þau taka fyrstu skrefin, heyra þau bera sig eftir aðstoð þegar þau vilja hjálp. Og að fá knús þegar maður þarf á því að halda, þau eru skynsöm og skynja líðan okkar. Mér líkar mjög vel, þetta er bara best,“ segir hún einlæg. Erfiðast við starfið segir hún þegar börnin eru í aðlögun. „Stundum er þetta erfitt fyrst og ekki síður fyrir foreldrana, sérstaklega með fyrsta barn. Við þurfum að leggja okkur fram við að kynnast fólki, hlusta, átta okkur á hvað fólk vill og finna saman góðan takt. Eftir að aðlögun lýkur gengur yfirleitt mjög vel. Margir foreldrar koma aftur til okkar, með annað og þriðja barn og það þykir okkur alltaf vænt um. Það er gott að finna fyrir trausti, ekki síst þar sem við erum ekki íslensk. Þetta gleður okkur alltaf,“ segir hún að lokum og kveður, enda bíða tíu litlar manneskjur eftir athygli hennar og aðstoð.