Vilja sameiginlega stefnu og framtíðarsýn sveitarfélaga
Mörg sóknarfæri eru til að efla þjónustu við fatlað fólk, ekki síst í ljósi nýtilkominna stjórnskipulagsbreytinga innan borgarinnar – þótt áskoranirnar vanti ekki. Þetta ber þeim Katrínu Hörpu Ásgeirsdóttur, nýjum skrifstofustjóra málefna fatlaðs fólks hjá Reykjavíkurborg og Aðalbjörgu Traustadóttur, sem nýverið lét af störfum sem skrifstofustjóri eftir langan og farsælan feril, saman um.
Þær Aðalbjörg og Katrín Harpa héldu sameiginlegt erindi á málþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á dögunum. Markmið málþingsins, sem ætlað var sveitarstjórnarfólki og starfsfólki sveitarfélaga, var að skapa vettvang fyrir opið samtal um framtíðarsýn, stefnumótun og þær áskoranir sem sveitarfélög landsins standa frammi fyrir í þjónustu og réttindum fatlaðs fólks. Boðað var til opins samtals um mótun á málaflokknum til framtíðar, með það að leiðarljósi að móta skýra og framsækna stefnu sem tryggir réttindi og góða þjónustu fyrir fatlað fólk.
Skyldur sveitarfélaga hafi aukist til muna
Þjónusta við fatlað fólk er eitt umfangsmesta verkefnið sem velferðarsvið Reykjavíkurborgar sinnir. Í heild fá hátt í tvö þúsund fatlaðir einstaklingar þjónustu frá sviðinu. Þá búa meira en 500 einstaklingar í húsnæði sérstaklega ætluðu fötluðu fólki.
Í erindi sínu fóru þær Aðalbjörg og Katrín Harpa yfir nokkrar af þeim fjölmörgu breytingum sem orðið hafa á umgjörð málaflokksins frá 2011, árinu sem þjónusta við fatlað fólk var flutt af hendi ríkisins yfir til sveitarfélaga, meðal annars með það að markmiði að samþætta hana betur við félagslega þjónustu. Skyldur sveitarfélaganna hafi aukist jafnt og þétt frá þeim tímapunkti og flest sveitarfélög bera halla af rekstri málaflokksins.
Breytingar á stjórnskipulagi hafi verið til bóta
Þær fóru jafnframt yfir þær umfangsmiklu breytingar sem ráðist var í, í kjölfar ítarlegrar úttektar á málaflokki fatlaðs fólks sem unnin var að beiðni þáverandi borgarstjóra árið 2024. Breytingarnar fólu í sér að stjórnskipulag málaflokks fatlaðs fólks var einfaldað til muna og rekstur færður frá fjórum miðstöðvum yfir á miðlæga skrifstofu. Deildir málaflokksins innan miðstöðva voru lagðar niður en ráðgjafar starfa eftir sem áður nærumhverfi notenda þjónustunnar en undir stjórn miðlægrar skrifstofu.
Markmiðið með breytingunum var að auka gæði þjónustu við fatlað fólk. Nú um þessar mundir er ár síðan breytingarnar tóku gildi og sagði Aðalbjörg þær hafa reynst vel. Yfirsýn og eftirlit hafi aukist, verklag sé nú einfaldara og þjónustan öll að verða samhæfðari.
Vilja sameiginlega stefnu og framtíðarsýn
Nú stendur yfir mikil vinna við að efla og þróa stuðnings- og stoðþjónustu fyrir fatlað fólk. Þær Aðalbjörg og Katrín Harpa sögðust binda miklar vonir við að sú vinna skili sér í bættri þjónustu og að betur verði komið til móts við þann hóp fatlaðs fólk sem hefur lágt SIS-mat en það er matstæki sem metur stuðningsþarfir fatlaðs fólks. Niðurstöður matsins eru jafnframt grundvöllur fjárframlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Þær drógu fram fleiri mál og verkefni sem þurfi að takast á við. Til að mynda þarfnist löggjöf og regluverk ýmiss konar breytinga, vinna þurfi á biðlistum, endurskoða þurfi lög um félagsþjónustu sveitarfélaganna og lögfesta þurfi SIS-mat. Þá fjölluðu Aðalbjörg og Katrín Harpa um mikilvægi þess að sveitarfélögin komi sér saman um samræmt mat á grunnþjónustu. Síðast en ekki síst þurfi að ljúka vinnu við kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
Þá hvöttu þær að lokum til þess að sveitarfélögin vinni saman í auknum mæli og móti sér sameiginlega stefnu og framtíðarsýn í málaflokknum.