TINNU-verkefnið fær 25 milljóna króna styrk

Ragnar Þór Ingólfsson, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri skrifa undir samning.

Ragnar Þór Ingólfsson, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri, hafa undirritað samning að upphæð 25 milljónir króna vegna TINNU-verkefnisins sem miðar sérstaklega að einstæðum foreldrum sem eru utan vinnumarkaðar og hafa átt í langvarandi félagslegum vanda. Styrkurinn felur í sér áframhaldandi stuðning ráðuneytisins við þróun verkefnisins hjá Reykjavíkurborg, með sérstakri áherslu á að þjónusta einstaklinga sem eru á örorku- eða endurhæfingarlífeyri. Markmiðið er að styðja þá til virkni og hvetja til þátttöku á vinnumarkaði á ný. Á árinu 2025 voru 65 þátttakendur í TINNU með samtals 116 börn.

Efla og styrkja foreldra í uppeldishlutverki

Markmiðið með TINNU er að efla og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu auk þess að stuðla að bættum lífsgæðum fjölskyldunnar. Áhersla er á sjálfsstyrkingu, aukna félagslega færni og almenna virkni og þátttöku í samfélaginu, þar með talið á vinnumarkaði.

„TINNA er mikilvægt úrræði fyrir ákveðinn hóp foreldra og barna þeirra sem margir hafa ekki annað að leita til og það er dýrmætt að geta stutt við þetta mikilvæga verkefni. Það er til mikils að vinna ef við náum að rjúfa vítahring fátæktar og auka líkur á að börnum þeirra foreldra sem taka þátt í TINNU vegni betur í framtíðinni,” segir Ragnar Þór Ingólfsson, félags- og húsnæðismálaráðherra.

„TINNA er verkefni sem getur skipt sköpum í lífi fólks. Við erum að koma til hjálpar, styðja við og valdefla einstaklinga og fjölskyldur í erfiðri stöðu. Þetta hefur gríðarlega jákvæð áhrif á möguleika þeirra, bæði fullorðinna og ekki síst barna þeirra, til að bæta sín lífsgæði og verða þátttakendur í samfélaginu,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri.

„TINNU verkefnið hefur skilað góðum árangri en í þjónustukönnun sem gerð var í desember sl. kom fram að 92% þátttakenda treysta starfsfólki TINNU, 92% þátttakenda eru ánægð með ráðgjöfina í TINNU, 88% þátttakenda líður vel eða frekar vel í TINNU, 87% töldu að stuðningur og aðgengi að starfsfólki hefði nýst þeim mjög vel eða frekar vel, 84% eru ánægð eða frekar ánægð með námskeið og fræðslu sem þeim stendur til boða í TINNU og 79% eru ánægð eða frekar ánægð með stuðning vegna barna,“ segir Þuríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri TINNU.

Þuríður segir að í könnuninni hafi þátttakendur jafnframt komið á framfæri þakklæti fyrir úrræðið og tekið fram að það hafi nýst þeim og börnum þeirra stórkostlega.

Hópastarf, fræðsla og dagskrá fyrir börn

TINNU-verkefnið hefur um árabil verið starfrækt á vegum Reykjavíkurborgar með stuðningi ráðuneytisins. Unnið er á grundvelli einstaklingsáætlunar og samanstendur dagskráin af hópastarfi og fræðslu. Auk þess er boðið upp á dagskrá fyrir börn í skólaleyfum, sem og sérstaka sumardagskrá. Einstaklingsviðtöl og önnur þjónusta eru jafnframt í boði eftir þörfum.

Þá hafa TINNA og EAPN, samtök fólks í fátækt, átt með sér samstarf síðastliðin ár sem hefur falið í sér að þátttakendur í TINNU starfa sem sjálfboðaliðar hjá EAPN, meðal annars til að efla vinnufærni og rjúfa félagslega einangrun. Eins hefur foreldrum og börnum verið boðið upp á sumarvirkni í skólaleyfum barna foreldrum að kostnaðarlausu.

TINNA er hluti af Virknihúsi hjá Reykjavíkurborg.