Þjónustu- og nýsköpunarsvið tilnefnt til UT-verðlauna 2025
Þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar hefur verið tilnefnt til UT-verðlauna Ský 2025 í flokknum Stafræn opinber þjónusta. Verðlaunin eru veitt árlega þeim lausnum sem þykja skara fram úr í stafrænni þróun og einföldun opinberrar þjónustu.
Tilnefningin byggir á öflugri og samfelldri stafrænni umbreytingu sviðsins þar sem notendamiðuð þjónustuhönnun og gagnadrifin nálgun eru hafðar að leiðarljósi. Á árinu 2025 þróaði sviðið og innleiddi fjölda stafrænna lausna sem bæta aðgengi borgarbúa að þjónustu og styðja við skilvirkari starfshætti innan borgarkerfisins.
Markmið UT-verðlaunanna er að varpa ljósi á framúrskarandi upplýsingatæknilausnir á Íslandi. Tilnefningin er viðurkenning á markvissri vinnu Reykjavíkurborgar að bættri og aðgengilegri þjónustu fyrir borgarbúa. Verðlaunin verða veitt á UT-messunni í Hörpu föstudaginn 6. febrúar.