Reykjavíkurborg innleiðir rafrænar innkaupabeiðnir
Reykjavíkurborg hefur hafið innleiðingu á rafrænum innkaupabeiðnum í samstarfi við Símann Pay. Breytingin verður innleidd í áföngum á öllum starfsstöðvum borgarinnar á næstu mánuðum og mun leiða til þess að innkaupabeiðnir á pappír, sem hafa verið notaðar hjá Reykjavíkurborg um áratugaskeið, verða lagðar niður.
Markmið innleiðingarinnar er að einfalda innkaupaferli og sjálfvirknivæða afgreiðslu á reikningum hjá bókhaldi Reykjavíkurborgar. Rafrænar innkaupabeiðnir eru liður í vegferð Reykjavíkurborgar frá árinu 2009 um að öllum reikningum skuli skilað rafrænt, en hefur það leitt af sér töluverða hagræðingu í rekstri. Jafnframt mun breytingin stuðla að fullkomnum rekjanleika innkaupa, bættri stjórnun fjármuna og rauntíma yfirsýn yfir tilfallandi innkaup.
Aukið öryggi og betri yfirsýn
Rafrænar innkaupabeiðnir byggja á öruggri auðkenningu. Starfsfólk Reykjavíkurborgar auðkennir sig með rafrænum skilríkjum áður en innkaupabeiðni er notuð, sem tryggir að aðeins þeir sem hafa fyrirfram gefna heimild geta sinnt innkaupum fyrir hönd borgarinnar. Þar sem öll innkaup verða að fullu rekjanleg er öryggi fyrir bæði Reykjavíkurborg og birgja tryggt.
Kerfið veitir stjórnendum jafnframt yfirsýn í rauntíma yfir úttektir starfsmanna og stuðlar að ábyrgri meðferð opinberra fjármuna.
Breytingin krefst engra tæknilegra breytinga í sölukassakerfum þeirra birgja sem Reykjavíkurborg á í viðskiptum við.
Með þessari breytingu stígur Reykjavíkurborg skref í átt að einfaldari, öruggari og skilvirkari opinberri stjórnsýslu.