Niðurstöðum vöggustofunefndar fylgt eftir
Borgarráð samþykkti í dag fjórar tillögur vegna eftirfylgni á skýrslu nefndar um athugun á starfsemi Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins 1974-1979.
Sjálfstæð og óháð nefnd sem Reykjavíkurborg skipaði til að gera athugun á starfsemi Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins í Reykjavík árin 1974-1979 kynnti niðurstöður sínar í borgarráði fimmtudaginn 15. janúar 2026. Um er að ræða framhaldsathugun sem unnin var í kjölfar fyrri athugunar á starfsemi vöggustofa í borginni fyrir árin 1949-1973. Þriðjudaginn 20. janúar samþykkti borgarstjórn síðan ályktun þar sem þau sem vistuð voru sem börn á Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins á árunum 1974 til 1979 og fjölskyldur þeirra eru beðin afsökunar á þeirri meðferð sem lýst var í skýrslu vöggustofunefndar.
Vöggustofubörnum boðin geðheilbrigðis- eða sálfræðiþjónusta
Fyrsta tillagan sem borgarráð samþykkti í dag er að Reykjavíkurborg tryggi að vöggustofubörn fái geðheilbrigðis- eða sálfræðiþjónustu eða, eftir atvikum, aðra sértæka aðstoð sér að kostnaðarlausu. Þetta var samþykkt á fundi borgarstjórnar 20. janúar og er um að ræða sambærilega þjónustu og var samþykkt í borgarráði í kjölfar athugunar fyrri vöggustofunefndar. Borgarstjórn samþykkti að fela skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, í samstarfi við sérfræðinga á þessu sviði, að láta vinna tillögu um nánari útfærslu sem tryggir vöggustofubörnum kostnaðarlausa geðheilbrigðis- eða sálfræðiþjónustu sem fyrst.
Vöggustofubörn geta óskað eftir þjónustunni í gegnum símanúmerið 411 1400 hjá Reykjavíkurborg með því að láta vita að erindið snerti vöggustofur, eða í gegnum netfangið voggustofur@reykjavik.is sem starfsmaður Reykjavíkurborgar vaktar. Nánar má lesa um fyrirkomulagið í gögnum um eftirfylgnina. Erfitt er að áætla fjölda vöggustofubarna sem munu óska eftir kostnaðarlausri geðheilbrigðis- eða sálfræðiþjónustu en í fyrstu er miðað við um 40 einstaklinga sem þurfa 3-10 tíma hver. Áætlaður kostnaður er um 15 milljónir króna og gert er ráð fyrir að hann falli að mestu til á þessu ári.
Skýrslunni vísað til velferðarráðs og mannréttindaráðs
Önnur tillagan snýr að eftirliti og framkvæmd á sviði barnaverndarmála. Í kjölfar þess að skýrsla fyrri vöggustofunefndar var gefin út greip Reykjavíkurborg til allnokkurra aðgerða. Vöggustofunefndin sem gerði athugunina fyrir starfsemina 1974-1979 telur til viðbótar við þau atriði sem borgin hefur þegar til skoðunar að afar mikilvægt sé að tryggja að fyrir liggi fullnægjandi lýsingar og skráningar, ekki aðeins um meðferð og afgreiðslu einstakra mála, heldur einnig um barnaverndarstarfið heildstætt. Vöggustofunefndin tekur einnig fram að við mat á gæðum barnaverndarstarfs sé almennt afar mikilvægt að huga að árangri og líðan þeirra einstaklinga sem barnavernd lýtur að á hverjum tíma, tryggja að beitt sé gagnreyndum aðferðum á hverjum tíma, sem og að leitast sé við að greina árangur af starfinu og aðferðum sem þar er beitt til lengri tíma. Borgarráð samþykkti því að vísa vöggustofuskýrslunni til umsagnar velferðarráðs og mannréttindaráðs.
Skorað á að ljúka gerð frumvarps um sanngirnisbætur sem fyrst
Þriðja tillagan lítur að skaðabótaskyldu hins opinbera. Vöggustofunefndin leggur til að fylgt verði tillögu fyrri vöggustofunefndar um að lagt verði á það mat, af bærum aðilum, hvort og þá að hvaða marki verði leitast við að rétta hlut þeirra einstaklinga sem vistaðir voru á Vöggustofunni Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins með fjárgreiðslu í formi skaðabóta. Vöggustofunefnd segir meðal annars að það þurfi að „horfa til þess að sanngirnisbætur hafa, sem úrræði til að mæta þeim sem voru vistaðir sem börn á vistheimilum á vegum hins opinbera, fengið afar mikla opinbera umfjöllun á síðustu árum og misserum. Telur nefndin að það atriði eitt út af fyrir sig leiði til þess að það sé afar mikilvægt, ekki síst gagnvart þeim hópi einstaklinga sem um ræðir, að fyrir liggi tiltölulega skýr afstaða hins opinbera um það hvort, við hvaða aðstæður og vegna hvaða tímabila og vistunarúrræða slíkar bætur geti komið til álita.“
Drög að frumvarpi um sanngirnisbætur á vegum forsætisráðuneytisins voru birt í samráðsgátt stjórnvalda undir lok ársins 2022 og frumvarp lagt fram á Alþingi veturinn 2023-2024 en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið hefur ekki verið lagt fram að nýju og er ekki á þingmálaskrá 2025-2026. Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu í upphafi árs 2026 hefur dómsmálaráðuneytið tekið verkefnið að sér og er að meta hvaða leiðir komi helst til greina. Borgarráð skorar á dómsmálaráðuneytið að ljúka gerð frumvarps um sanngirnisbætur sem fyrst til að leitast við að rétta hlut þeirra einstaklinga sem vistaðir voru á Vöggustofunni Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins með fjárgreiðslu í formi skaðabóta.
Ekki lagaheimild fyrir frekari athugunum
Fjórða og síðasta tillagan felur í sér að ekki verði um frekari athuganir að ræða á vöggustofum á grundvelli laga nr. 45/2022 því ekki liggi fyrir að önnur vistheimili fyrir börn hafi sem slík beinlínis verið skilgreind sem vöggustofur.