Brú yfir Helluvatn lokað tímabundið vegna framkvæmda
Brúnni yfir Helluvatn verður lokað fyrir akandi umferð frá og með deginum í dag, miðvikudeginum 21. janúar, vegna nauðsynlegs viðhalds. Brúin er í tveimur hlutum og er staðsett þar sem Helluvatn mætir Elliðavatni, nærri Elliðavatnsbænum. Brúin verður lokuð fyrir bílaumferð á meðan á framkvæmdum stendur en opið verður fyrir aðra ferðamáta; gangandi, hjólandi og ríðandi umferð.
Þetta gerir það að verkum að aðgengi fyrir akandi umferð að Heiðmörk frá Suðurlandsvegi nær ekki lengra en að brúnni. Sett hafa verið upp skilti um lokunina. Aðgengi neyðaraksturs er tryggt inn í Heiðmörk hinum megin frá í gegnum veg sem annars er lokaður fyrir almenna umferð á veturna.
Samráð hefur verið haft við Skógræktarfélag Reykjavíkur sem er með starfsemi í Heiðmörk og Elliðavatnsbænum. Einnig hafa verið gefin út viðeigandi leyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Fiskistofu og jafnframt fengin umsögn frá Veitum.
Framkvæmdin felst í að endurnýja burðar- og slitklæðningu. Einnig verður vegrið og brúarvegrið endurnýjað ásamt því að malarslitlagið á veginum við brúna verður lagað til. Áætlað er að framkvæmdin taki um fimm vikur.