Breyting á deiliskipulagi Kvosarinnar
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur hefur samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar sem tekur til lóðanna nr. 8-10, 12,12a og 14 við Austurstræti. Næst verður málið lagt fyrir borgarráð sem þarf að staðfesta afgreiðsluna.
Breytingin felur meðal annars í sér breytta notkun húsanna þannig að heimilt verður að hafa íbúðir á efstu tveimur hæðunum, 4. og 5. hæð, þar sem áður voru skrifstofur. Skrifstofur verða þó áfram heimilar á öllum efri hæðum.
Breytingar á útliti í samráði við Minjastofnun
Samkvæmt tillögunni verður heimilt að gera ákveðnar breytingar á útliti húsanna, meðal annars setja svalir á valda staði og breyta kvistum. Allar útlitsbreytingar skulu gerðar í samráði við Minjastofnun og senda þarf stofnuninni aðaluppdrætti til umsagnar.
Þá er gert ráð fyrir að skyggni yfir útisvæði veitingastaða að Austurvelli verði áfram tryggt.
Við meðferð málsins lágu fyrir meðal annars minnisblað frá Myrru hljóðstofu, umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur auk umsagnar frá Minjastofnun Íslands.