Borgarstjóri sendir samstöðubréf til Nuuk

Róbert Reynisson
Ráðhúsið, séð eftir brúnni. Fánaborg með Reykjavíkurfánum á brúnni. Tveir svanir í forgrunni.

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri sendi í dag samstöðubréf til Avaaraq S. Olsen, borgarstjóra Kommuneqarfik Sermersooq (Nuuk). Í bréfinu sendir hún borgarstjóranum og íbúum hlýjar kveðjur og kveðst vilja sýna okkar kæru nágrönnum táknræna samstöðu í anda vestnorrænnar samvinnu.

„Reykjavík stendur með ykkur!“ segir í bréfinu og að samband Reykjavíkur og Nuuk eigi sér sterkar rætur, meðal annars sem norrænar höfuðborgir á norðurslóðum. „Við deilum sameiginlegum gildum um réttlæti, virðingu fyrir menningu og sjálfsákvörðunarrétti samfélaga, jafnræði og sameiginlegri sýn um friðsæl og sjálfbær norðurslóðasamfélög.“ 

„Nuuk er ekki aðeins vinabær Reykjavíkurborgar heldur einnig traustur samstarfsaðili meðal annars í gegnum Vestnorræna höfuðborgarsjóðinn. Á tímum áskorana í alþjóðamálum, sem hafa áhrif á stöðu Grænlands og norðurslóða, telur Reykjavíkurborg afar mikilvægt að láta skýrt í ljós að við stöndum með íbúum Nuuk og grænlensku þjóðinni.“

Samstöðubréf til borgarstjóra Kommuneqarfik Sermersooq (Nuuk).