Bílnúmeralesari á endurvinnslustöðvum Sorpu
Bílnúmeralesari verður tekinn í notkun á endurvinnslustöðvum SORPU frá og með 1. mars næstkomandi. Lesarinn skannar bílnúmer og greinir hvort bíllinn sé skráður á íbúa á höfuðborgarsvæðinu eða aðra. Bílar sem eru skráðir á fyrirtæki eða íbúa utan höfuðborgarsvæðisins greiða samkvæmt gjaldskrá fyrir fyrirtæki. Engin breyting verður á gjaldtöku fyrir bíla sem eru skráðir á íbúa á höfuðborgarsvæðinu.
Til að tryggja sanngjarna skiptingu kostnaðar
Tilgangurinn er ekki síst að með þessu er hægt að rukka fyrirtæki og íbúa utan höfuðborgarsvæðisins sem ekki hafa tekið þátt í kostnaði en nýta sannarlega stöðvarnar. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa nú þegar greitt fyrir notkun á endurvinnslustöðvum í gegnum fasteignagjöld.
Úrgangur frá framkvæmdum fellur ekki þar undir og því greiða íbúar fyrir hann við losun.
Fyrirtæki, rekstraraðilar og íbúar utan höfuðborgarsvæðisins hafa hins vegar ekki greitt fyrir þjónustu endurvinnslustöðva og greiða því fyrir losun á flestum flokkum.
SORPA er í eigu íbúa sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu. Innleiðing bílnúmeralesara er liður í því að tryggja sanngjarna skiptingu kostnaðar og að þjónusta SORPU sé í samræmi við hlutverk og fjármögnun þess.