Vinnustaðakeppni – tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar

Fjölbreyttir ferðamátar

Reykjavíkurborg stóð nýverið fyrir tilraunaverkefni þar sem fjórir stærstu vinnustaðir Vatnsmýrarinnar tóku þátt í skemmtilegri keppni um að fjölga ferðamátum öðrum en einkabíl til vinnu.

Starfsfólk hjá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Landspítalanum (Skaftahlíð) og Reykjavíkurborg (Ráðhúsinu) skráði ferðir sínar með smáforriti sem greindi ferðamátann á hverjum degi. Markmiðið var að sjá hvort slíkt verkefni gæti hvatt starfsfólk fyrirtækja til að draga úr bílferðum í og úr vinnu. Jafnframt var markmiðið að safna gögnum sem nýtast við þróun stærra verkefnis í framtíðinni.

Í heild tóku 147 starfsmenn þátt. Þátttakendur gátu unnið vinninga og jukust vinningslíkur því oftar sem fólk valdi aðra ferðamáta en einkabílinn.

Fararmátanotkun-hlutfall ferða af heildarferðum eftir faramáta yfir tímabilið

Mjótt var á munum á milli starfsstaðanna en Háskóli Íslands stóð uppi sem sigurvegari, en aðeins 32% af ferðum þátttakenda í HÍ voru farnar á einkabíl. Hinir vinnustaðirnir fylgdu þeim fast á hæla.

Til hamingju Háskóli Íslands með frábæran árangur!

Verkefnið var hluti af stærra tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar og munu niðurstöðurnar nýtast við að hanna stærra og markvissara framtaksverkefni sem fleiri vinnustaðir geta tekið þátt í.

Nemendarannsókn

Samhliða vinnustaðakeppninni var framkvæmd rannsókn á ferðavenjum meðal nemenda í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Nemendur tóku fyrst þátt í grunnlínumælingu á ferðavenjum sínum í eina viku. Því næst var þeim skipt í þrjá hópa:

  • Samanburðarhóp, sem fékk engin verðlaun
  • Rannsóknarhóp A, sem gat unnið smærri vinninga fyrir vistvænar ferðir
  • Rannsóknarhóp B, sem gat unnið stærri vinninga fyrir vistvænar ferðir

Vistvænir ferðamátar sem voru taldir með voru: ganga, hjól, rafhlaupahjól og strætó.

Þó að munurinn hafi ekki náð marktekt gáfu niðurstöður í skyn að báðir rannsóknarhóparnir juku bílanotkun talsvert minna en samanburðarhópurinn milli grunnlínutímabils og rannsóknartímabils – og áhrifin héldust mánuði eftir að rannsókn lauk á eftirfylgdartímabilinu.

Hlutfall ferða sem farnar voru á bíl - súlurit.

Hvað tekur við?

Reykjavíkurborg mun nú halda áfram þróun verkefnisins, nýta lærdóminn úr tilrauninni og móta nýjar leiðir til að hvetja sem flest til að prófa fleiri ferðamátakosti í daglegu lífi. Áformað er að framkvæma nokkrar minni tilraunir til viðbótar áður en endanlegt verkefni verður kynnt og fleiri vinnustöðum boðið að taka þátt.