Vinnuskóli Reykjavíkur gekk ljómandi vel í sumar

Vinnuskólinn

Vinnuskóli Reykjavíkur hefur lokið störfum í sumar en 3485 nemendur stunduðu sína sumarvinnu við skólann og gekk starfið mjög vel. Starfið snýst um að fegra, hreinsa til og gera umhverfið fallegt. Markmiðið er meðal annars að nemendur finni til ábyrgðar í nærumhverfi sínu.

74 leiðbeinendur störfuðu með nemendum í sumar. Nefna má að allir nemendur fengu vinnumarkaðsfræðslu og Listasafn Reykjavíkur bauð upp á kennslu í umhverfisvænni list fyrir alla nemendur 10.bekkjar í almennum garðyrkjuhópum og mun sýna afraksturinn á Menningarnótt.

Vinnuskólinn var svo heppinn að hljóta samfélagsmiðlastyrk úr Loftslagssjóði ungmenna. Hverfahátíðir voru haldnar í lok hvers tímabils sem vöktu mikla lukku en Vinnuskólinn nýtti þessar hátíðir til að útbúa efni fyrir samfélagsmiðla þar sem flokkun, endurvinnsla og endurnýting var í öndvegi.

Góð reynsla á vinnumarkaði

Vinnuskóli Reykjavíkur bauð upp á ýmis störf sumarið 2025. Almennir vinnuskólahópar í garðyrkju voru til staðar í öllum hverfum borgarinnar og í boði fyrir alla nemendur sem sem gjaldgengir eru í störf í skólanum. Einnig var skólinn í samstarfi við ýmsa aðila sem hjálpa til við að veita ungmennum fjölbreytta reynslu á vinnumarkaði. Þar má til dæmi nefna leikskóla, frístundaheimili, íþróttafélög og skátafélög en alls 1368 nemendur lögðu leið sína í störf hjá samstarfsaðilum þetta sumarið.

Vinnuskóli Reykjavíkur leggur ríka áherslu á að veita nemendum góða upplifun og fræðslu í fyrstu skrefum þeirra á vinnumarkaði. Vinnuskólinn veitir meðal annars fræðslu um launaseðla, ferilskrár, vinnusiðferði og tekjuskatt. Fræðslan tekur mið af aldri nemenda.