Viljayfirlýsing undirrituð um lóð undir Miðstöð um öryggisráðstafanir

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra undrrita viljayfirlýsinguna.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra undrrita viljayfirlýsinguna.

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri, hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um að tryggja ríkinu lóð undir nýja fyrirhugaða stofnun, Miðstöð um öryggisráðstafanir, á landi Reykjavíkurborgar á  Hólmsheiðarsvæðinu.

Hlutverk stofnunarinnar verður að reka úrræði fyrir einstaklinga sem dæmdir hafa verið til þess að sæta öryggisráðstöfunum samkvæmt dómsúrlausn í samræmi við ákvæði almennra hegningarlaga. Þar á meðal eru einstaklingar sem lokið hafa afplánun en talið er að séu enn hættulegir samfélaginu. 

Viljayfirlýsingin er mikilvægt skref í að tryggja þjónustu við þennan hóp og ekki síður auka öryggi almennings.

Við byggingu Miðstöðvar um öryggisráðstafanir verður lögð áhersla á öruggar og tryggar aðstæður sem stuðla að endurhæfingu þeirra einstaklinga sem þar vistast. Markmiðið er að tryggja þeim viðeigandi stuðning, þjálfun og meðferð.

„Það þarf þor til að tækla þessi mál og nú hefur það loksins verið gert,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra. „Óvissa hefur ríkt í þjónustu við einstaklinga sem dæmdir eru til að sæta öryggisráðstöfunum en nú eru stjórnvöld loksins að taka utan um þetta gríðarlega stóra mál. Markmiðið er að tryggja skjólstæðingum nýju stofnunarinnar öruggt og uppbyggilegt umhverfi og tryggja um leið öryggi almennings.“

„Með þessari viljayfirlýsingu stígum við mikilvægt skref til að tryggja að öryggisvistunarúrræði verði að veruleika. Eitthvað sem sveitarfélög hafa kallað eftir árum saman, “ segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri. „ Nú munum við vinna náið saman að lausn sem bæði styrkir öryggi samfélagsins og skapar betri aðstæður til endurhæfingar. “

Frá undirrituninni.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri, og oddvitar borgarstjórnarflokkanna í meirihluta: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Helga Þórðardóttir og Líf Magneudóttir. Með á myndinni er Páll Winkel sem er fulltrúi félags- og húsnæðismálaráðuneytisins í verkefninu.