Kynheilbrigðisátakið Vika6 var haldið í sjötta sinn í síðustu viku, 3.-7. febrúar þar sem fjöldi grunnskóla, félagsmiðstöðva og leikskóla tóku þátt. Þemað í ár var líkaminn og kynfærin og útbjó Jafnréttisskóli Reykjavíkur fjóra, aldursviðeigandi fræðslupakka í tengslum við viðfangsefnið. Staðið var að mörgum frábærum verkefnum í vikunni en verkefnastýrur Jafnréttisskólans heimsóttu til að mynda Hlíðaskóla föstudaginn 7. febrúar þar sem lokadagur Viku6 var haldinn með pompi og prakt.
Unnið þvert á árganga
Elva Dögg Númadóttir, verkefnastjóri í Hlíðaskóla segir að það hafi lengi verið stefna skólans að efla markvissa lífsleikni í skólanum. ,,Vika6 er einn liður í því og í ár vorum við með uppskeruhátíð á föstudeginum þar sem unnin voru skemmtileg verkefni í hópum þvert á árganga með það að leiðarljósi að styrkja skólasamfélagið og efla jákvæðan skólabrag. Markmiðið var því að verkefnin eða vinnustöðvarnar væru skipulagðar þannig að öll gátu tekið þátt, haft hlutverk og tilgang og upplifað þannig gleði og vellíðan“. Elva segir einnig að kennarar nýta dagana fyrir og eftir Viku6 í undirbúning og úrvinnslu viðfangsefnisins og að það væri, eins og alltaf, aðlagað að aldri og þroska nemenda.
Eftir vinnustöðvarnar var boðið upp á pylsur og bollakökur í hádegismat og svo dönsuðu nemendur saman í sal skólans.