Vesturbæjarlaug opnar 19. júlí
Umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir hafa staðið yfir í Vesturbæjarlaug í sumar. Upphaflega var gert ráð fyrir ákveðnum tímafresti á lokun, en þegar unnið er að endurbótum á eldri mannvirkjum, geta komið upp ófyrirséð atriði sem hafa áhrif á framvindu verksins.
Til stóð að opna aftur á morgun þriðjudaginn 15. júlí, en af óviðráðanlegum orsökum lengist viðhaldslokunin um fjóra daga og Vesturbæjarlaugin opnar á ný laugardaginn 19. júlí næstkomandi klukkan 9:00.
Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður Vesturbæjarlaugar, segir að í svona viðgerðum geti alltaf komið eitthvað upp sem valdi töfum, en allt kapp er nú lagt á að klára viðgerðina í tæka tíð. „Við þökkum innilega fyrir skilning og þolinmæði. Það eru bara fjórir dagar í opnun og við hlökkum til að taka á móti ykkur þann 19. júlí næstkomandi. Vesturbæjarlaugin verður sem ný,“ segir Anna Kristín.