Venjur og hindranir íbúa í flokkun og samgöngum

Margir þeirra sem nota bíl til að komast til vinnu hafa áhuga á að skipta yfir í aðra ferðamáta.

Könnun á vegum verkefnisins Tilraunaborgir (Pilot Cities) var framkvæmd fyrr á árinu meðal fullorðinna íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Þátttakendur voru spurðir um venjur sínar tengdar samgöngum og úrgangsflokkun, hvaða hindranir þeir upplifa við að tileinka sér sjálfbærari hegðun, viðhorf sín til loftslagsmála, lífsánægju, félags- og lýðfræðilegan bakgrunn, og staði sem þeir heimsækja reglulega á höfuðborgarsvæðinu.

Rannsóknin var unnin og leidd af verkfræðideild Háskóla Íslands.

Tilraunaborgir er rannsóknar- og nýsköpunarverkefni sem snýr að venjum og hindrunum íbúa höfuðborgarsvæðisins í samgöngum og flokkun úrgangs. Markmiðið er að draga hraðar úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við markmið Reykjavíkurborgar um kolefnishlutleysi fyrir árið 2030. 

Samgöngur

Niðurstöður sýna að meirihluti svarenda notar bíl til að komast á milli staða. Því lengra sem heimilið er frá miðborginni, því líklegra er að viðkomandi noti bíl reglulega. Jafnvel þeir sem búa stutt frá vinnustað nota bíl í meira en 50% ferða sinna. Hins vegar virðast margir þeirra sem nota bíl til vinnu hafa áhuga á að skipta yfir í aðra ferðamáta þar sem aðeins 36% segjast myndu vilja bílinn sem aðal samgöngumáta. 

Samgöngumátar til að komast til vinnu

Tölfræðigreining á helstu samgöngumátum svarenda leiddi í ljós að notendur almenningssamgangna eru líklegri en þeir sem nota virkar samgöngur (svo sem gangandi eða hjólandi) til að eiga bíl, einkum vegna áreiðanleika hans. Þó að sumir noti aðallega almenningssamgöngur eða virkar samgöngur til vinnuferða daglega, eiga þeir samt bíl til að sinna daglegum erindum.

Helstu hindranir fyrir því að skipta yfir í almenningssamgöngur sem aðalfaramáta eru meðal annars að strætó tekur of langan tíma, sé of dýr, hafi engar beinar tengingar og sé óáreiðanlegur. 

Hindranir fyrir því að nota almenningssamgöngur

Hindranir fyrir því að skipta yfir í virka ferðamáta voru svipaðar: erfitt að sinna erindum, helstu staðsetningar of langt hvor frá annarri, og að ferðast með virkum ferðamáta taki of langan tíma. Á sama hátt og þegar spurt var um almenningssamgöngur voru konur líklegri til að telja erindi og tíma vera hindranir. Einnig eru þeir sem búa lengra frá miðbænum líklegri til að líta á allt ofangreint sem hindranir við að skipta yfir í virka ferðamáta.

Hindranir fyrir því að nota virkan faramáta

Endurvinnsla og flokkun

Svipað og með samgöngur var spurt um núverandi flokkunarvenjur íbúa og helstu hindranir fyrir því að flokka meira eða á annan hátt. Flestir svarendur flokka helstu úrgangsflokka sem eru sóttir við heimilli: pappír, plast, lífrænan- og blandaðan úrgang. Minna er flokkað af gleri og málmi, líklega vegna þess að slíkt krefst sérstakra ferða í grenndargáma eða á endurvinnslustöðvar Sorpu. 

Hindranir fyrir flokkun

Helstu hindranir sem nefndar voru eru að ekki séu til staðar réttar gerðir eða nægjanlegt magn af flokkunartunnum við heimilið, að tunnurnar séu oft fullar, tíðni tæmingar, og að ekki sé nægilegt rými inná heimilinu til að flokka mismunandi úrgangsflokka. Margir töldu einnig að ferlið væri of flókið og að skortur væri á upplýsingum um hvernig eigi að flokka úrgang. 

Íbúar í Grafarvogi og Grafarholti voru óánægðastir með sorphirðuþjónustuna, á meðan íbúar í miðborg Reykjavíkur voru meðal þeirra ánægðustu. Þeir sem búa í einbýlishúsum voru líklegri til að vera ánægðir með rými til flokkunar inná heimilinu og flokkunarkerfið í heild. 

Rannsakendur við Háskóla Íslands munu á næstunni taka rýnihópaviðtöl við íbúa úr öllum hverfum borgarinnar úr hópi svarenda til dýpka skilning á hindrunum.