
Framlag foreldra til skólastarfs er mjög mikilvægt og getur virkni þeirra haft víðtæk samfélagsleg áhrif. Á árshátíðum nemenda í Breiðholtsskóla og Ölduselsskóla sem haldnar voru í mánuðinum voru foreldrar virkir þátttakendur, auk þess að farið var í foreldrarölt í kjölfarið. Þátttaka foreldra í starfinu býður upp á tækifæri til að kynnast, spjalla saman og styðja við hvort annað í foreldrahlutverkinu.
Foreldrar þjónuðu til borðs
Það var samróma álit starfsfólks Breiðholtsskóla, félagsmiðstöðvarinnar Bakkans, unglinganna og foreldra að árshátíðin hafi verið frábær og til fyrirmyndar. „Árshátíðarval skólans sá um allt tengt skipulagi, mat, skreytingum, að peppa viðburðinn og eiga þau, og starfsfólk sem aðstoðaði, risa hrós skilið,“ segir Sunna Vilhjálmsdóttir, aðstoðarforstöðukona í Bakkanum.
ClubDub og DJ Sóley tróðu upp og náðu ótrúlega góðri stemmningu í húsinu. „Öll umgjörð árshátíðarinnar fór vel fram og foreldrar í unglingadeild komu og hjálpuðu við að þjóna til borðs og voru líka í frágangi eftir mat, sem var ómetanleg hjálp og gaman að sjá að foreldrar vilja taka virkan þátt í lífi barnanna,“ segir Sunna.

Um 50 foreldrar tóku þátt í foreldraröltinu
Í Ölduselsskóla var ekki síður góð stemning þegar árshátíð skólans var haldin. Starfsfólk skólans og Hólmasels, nemendur og foreldrar voru sammála um að þetta hafi verið frábær viðburður að öllu leyti. Nemendur mættu prúðbúnir og í sínu besta formi, tilbúnir að eiga saman góða kvöldstund. Boðið var upp á þriggja rétta máltíð sem matreiðslumeistari skólans undirbjó og um 15 foreldrar þjónuðu nemendum og starfsfólki skólans til borðs. Nemendaráðið sá um skreytingar og hefur íþróttasalurinn sennilega aldrei litið jafn vel út. Hápunktur kvöldsins var þegar tónlistarmaðurinn Emmsje Gauti steig á svið við mikinn fögnuð nemenda.
Ánægjulegt var að sjá um 50 foreldrar mættu í foreldraröltið að ballinu loknu sem er merki um góða og farsæla samvinnu foreldra og skólans. Við getum svo sannarlega verið stolt af því að tilheyra samfélagi Ölduselsskóla.
