Valkostir um legu Sundabrautar til kynningar
Umhverfismatsskýrsla vegna Sundabrautar og drög að aðalskipulagsbreytingu eru komin til kynningar í Skipulagsgáttinni. Haldnir verða þrír kynningarfundir í Reykjavík fyrir íbúa. Frestur til þess að senda inn umsagnir eða athugasemdir er til 30. nóvember.
Áréttað er að hér er um drög að að ræða sem fara nú í forkynningu áður en lögformleg aðalskipulagsbreyting verður endanlega mótuð og auglýst. Ákvörðun um endanlega útfærslu Sundabrautar í aðalskipulagi mun meðal annars byggja á niðurstöðum umhverfismatsins, sjónarmiðum sem koma fram í kynningarferlinu framundan og nánara samkomulagi milli borgar og ríkis.
Tveir aðalvalkostir, jarðgöng eða brú
Vegagerðin í samvinnu við Reykjavíkurborg áformar lagningu Sundabrautar milli Sæbrautar og Kjalarness. Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta á svæðinu, stytta vegalengdir og bæta tengingar á milli svæða.
Í fyrirliggjandi umhverfismatsskýrslu leggur Vegagerðin fram tvo aðalvalkosti fyrir þverun Kleppsvíkur milli Sæbrautar við Sundahöfn og Gufuness, annars vegar jarðgöng og hins vegar 30 metra háa brú. Báðir valkostir fylgja sömu veglínu frá Gufunesi um Geldinganes, Gunnunes, Álfsnes og upp á Kjalarnes. Eiðsvík, Leiruvogur og Kollafjörður verða þveruð með landfyllingum og brúm. Samkvæmt umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist árið 2027 og ljúki árið 2031.
Umhverfisskýrsla framkvæmdaaðilans var unnin í samráði við Reykjavíkurborg. Einnig er lagt fram sérstakt umhverfismat aðalskipulagsbreytingar sem unnið er af VSÓ ráðgjöf.
Kynningarfundir í næstu viku
Haldnir verða þrír kynningarfundir í Reykjavík, þar sem fjallað verður um niðurstöður umhverfismats Sundabrautar og drög að aðalskipulagsbreytingu.
- 20. október kl. 18:00-19:30. Klébergsskóli, Kjalarnesi
- 21. október kl. 17:30-19:00. Hilton Reykjavík Nordica, Laugardal
- 22. október kl. 17:30-19:00. Borgaskóli, Grafarvogi
Aðalvalkostir verða kynntir og fjallað um áhrif þeirra á íbúa og starfsemi í nágrenni Sundabrautar.