Útiveitingar á borgarlandi

Mannlíf í miðborginni

Nú þegar styttist óðfluga í sumarið vilja rekstraraðilar huga að því hvort þeir séu með heimild fyrir útiveitingum í rekstrarleyfi.

Allir veitingastaðir sem vilja bjóða gestum sínum að þiggja áfengar veitingar á útisvæði þurfa að vera með heimild fyrir útiveitingum í rekstrarleyfi veitingastaðarins. Sumir staðir geta notað eigin lóð en öll geta sótt um afnot af borgarlandi. Rekstraraðilum sem selja ekki áfengar veitingar er heimilað að staðsetja borð og stóla upp við húsvegg án frekari leyfa. 

Umsóknarferlið

Sótt er um afnot af borgarlandi á Mínum síðum Reykjavíkurborgar. Teikning af útisvæðinu er hlaðin upp með umsókn. Teikning þarf að sýna öll mál, fjölda borða og stóla. 

Ef skrifstofa samgangna og borgarhönnunar samþykkir teikninguna er rekstaraðila sendur samningur til rafrænnar undirritunar. Rekstraraðila ber þá að senda undirritaðan samning ásamt teikningu til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu með umsókn um breytingu á rekstrarleyfi. Berist engar athugasemdir gefur sýslumaður út rekstrarleyfi með heimild fyrir útiveitingum.