Ungmenni í sumarstörfum

Róbert Reynisson
Regnfataklædd ungmenni planta í beð við gatnamót hjá flugvelli og göngubrú. Sumar, rigning, umferð í bakgrunni.

Borgarráð samþykkti í apríl síðastliðnum fjármagn vegna ráðningar 17 ára ungmenna í sumarstörf. Um er að ræða 100 störf. Hluti þessara starfa tekur sérstaklega mið af 17 ára ungmennum í viðkvæmri stöðu og hefur það markmið að styðja þau til atvinnuþátttöku. Einnig var kallað eftir hugmyndum frá ungmennum að störfum sem þau hefðu áhuga á að sinna.

Mikil ánægja hefur verið innan Reykjavíkurborgar með verkefnið og hefur stærsti hluti ungmennanna nú þegar hafið störf. Sumarstörfin eru meðal annars hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum, í leikskólum, við umhirðu borgarlandsins og í félagsstarfi fyrir öldruð og á hjúkrunarheimilum.

Unnið var sérstaklega með ungmenni í viðkvæmri stöðu og var það gert í samvinnu við skóla- og frístundasvið og velferðarsvið. Haft er samband við ungmennin og þeim boðið í viðtal, lögð er áhersla á að finna störf sem henta hverju og einu ungmenni og í boðí er aukinn stuðningur inn í störfin ef þörf er á. 

Kallað var eftir hugmyndum frá ungmennum að skapandi störfum. Meðal hugmynda sem fóru í framkvæmd er ein sem unnin er í samstarfi við Hitt húsið og hefur það markmið að bjóða ungmenni frá Palestínu velkomin í íslenskt samfélag með fjölbreyttri samveru, svo sem bíóferðum, hestaferðum, menningarviðburðum til að kynna Reykjavíkurborg betur auk þess sem þau eru kynnt fyrir íslenskum jafnöldum sínum. Einnig er unnið að verkefni í Breiðholti í samvinnu við Flotann, flakkandi félagsmiðstöð, þar sem ungmenni vinna að ýmiss konar viðhaldi á húsnæði og lóðum í eigin hverfi, undir stjórn verkstjóra.