Fjölgun sumarstarfa fyrir 17 ára ungmenni

Atvinnumál

Ungmenni við garðyrkjustörf á Austurvelli
Ungmenni við garðyrkjustörf á Austurvelli

Boðið verður upp á 100 störf fyrir 17 ára ungmenni í sumar á vegum Reykjavíkurborgar. Hluti þessara starfa verður útfærður sérstaklega fyrir 17 ára ungmenni í viðkvæmri stöðu. Jafnframt verður lögð lokahönd á fyrirkomulag sumarstarfa fyrir 17 ára ungmenni svo ekki þurfi að bregðast við á hverju vori.

Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár auglýst ríflega 1000 sumarstörf. Þar af hafa um 30-40 stöðugildi sérstaklega verið ætluð 17 ára ungmennum en síðustu ár hefur borgarráð jafnan samþykkt að bæta við sumarstörfum fyrir þennan aldurshóp. Í fyrra var farið í þróunarverkefni og fjármagni veitt til sköpunar 50 starfa fyrir 17 ára í viðkvæmri stöðu og gaf það ágæta raun. 

Starfshópur um framtíðarfyrirkomulag sumarstarfa fyrir 17 ára skilaði skýrslu vorið 2024 og byggir tillaga samstarfsflokkanna í borgarstjórn um fjölgun sumarstarfa fyrir þennan aldurshóp á efni hennar. Tillagan verður tekin fyrir í borgarstjórn í dag. Rannsóknir sýna að sumarstarf á þessum aldri hefur mikið forvarnargildi, stuðlar að þroska og efnahagslegu sjálfstæði. Þá gefa sumarstörf fyrir þennan aldurshóp ungmennum tækifæri til tengslamyndunar á mikilvægum mótunarárum og undirbúa þau fyrir þátttöku á vinnumarkaði. Vinnuskóli Reykjavíkur tryggir sumarstörf fyrir 14, 15 og 16 ára ungmenni en 17 ára falla oft á milli, þar sem þau mega ekki sinna öllum hefðbundnum sumarstörfum sem auglýst eru hjá Reykjavíkurborg. 

Vel haldið utan um ungmenni í viðkvæmri stöðu

Áætlaður kostnaður er í kringum 100 milljónir króna sem eru laun og launatengd gjöld séu ungmennin ráðin í fjórar vikur. Einnig þarf að gera ráð fyrir verkefnastjóra sem heldur utan um ráðningar ungmenna í viðkæmum hópi. Reynsla síðasta árs sýndi fram á mikilvægi þess að haldið sé vel utan um ungmenni í viðkvæmri stöðu þegar verið er að finna sumarvinnu. Hluti hópsins gæti þurft stuðning í starf og aðstoð við gerð ferilskrár. Áætlaður kostnaður við ráðningu atvinnuráðgjafa í tvo mánuði er 1,6 milljón króna og er það innifalið í kostnaðaráætlun.

Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna um fjölgun sumarstarfa fyrir 17 ára ungmenni