Unglingar lögðu til hugmyndir að líflegu og öruggu hverfi
Um 100 unglingar og ungmenni úr Breiðholti mættu á opinn ungmennafund í Ölduselsskóla sem borgarstjóri boðaði til og haldinn var í síðustu viku. Þar fengu þau tækifæri til að ræða hugmyndir sínar og áhyggjur við borgarstjóra. Markmiðið var að „nesta“ pólitíkina með ferskum sjónarhornum unga fólksins.
Hugmynd um jólaþorp í Seljahverfi fékk mikið klapp
Hugmyndir ungmennanna um hvernig bæta mætti hverfið voru fjölbreyttar og áhugaverðar. Öryggismál og umhverfismál voru þeim ofarlega í huga, auk þess sem mörg lögðu áherslu á aukið félagslíf og samveru fyrir öll ungmenni í Breiðholti. Ein hugmyndin sem fékk hæsta klappið var að setja upp jólaþorp við tjörnina nálægt Seljaskóla, skemmtileg hugmynd sem gæti skapað nýjan samveruvettvang í hverfinu.
Mathöll og líkamsrækt í Mjódd
Tillögur ungmennanna voru fjölmargar og náðu yfir breitt svið. Þau vildu sjá mathöll, ísbúð og líkamsrækt í Mjóddinni, bætta körfuboltaaðstöðu með skjólþaki og fast húsnæði fyrir 16+ hópinn með fjölbreyttri dagskrá. Umhverfismál voru einnig áberandi og var áherslan á fleiri ruslatunnur, vatnsbrunna, blóm, bekki og öryggismyndavélar.
Á toppi óskalista margra hópa voru hugmyndir eins og hjólabrettagarður, grillskýli og leiktæki líkt og í Gufunesi. Þá var ákall um aukna kynfræðslu og að rafrettuverslun í Mjóddinni yrði fjarlægð. Þá vildu mörg sjá lögreglustöð í Mjóddinni og að strætó yrði gjaldfrír fyrir grunn- og framhaldsskólanemendur.
Vilja barina burt
Nemendur úr 8. bekk í Hólabrekkuskóla, þær Nejla, Elsa, Ísabella og Sonja, voru ánægðar með þingið. Þær lögðu meðal annars til að börunum við Gerðuberg og í Hólagarði yrði lokað, þeim fylgdi drukkið fólk sem valdi óöryggi barna og ungmenna sem eru á leið heim úr frístundum. Einnig vildu þær að það yrði frítt í strætó fyrir öll undir 18 ára aldri.
Vilja fá íbúana út til að skapa líflegt umhverfi
Fulltrúar úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í 16+ starfinu, Tung og Saulo, lögðu áherslu á betri götulýsingu í fra Efra-Breiðholti, snyrtilegra umhverfi og fleiri útivistarsvæði. Þau vildu sjá útigrill og viðburði í Efra- Breiðholti eða í Elliðaárdalnum nærri hverfinu til að hvetja fólk til að vera meira úti allt árið um kring. „Ef fleiri eru úti, þá verður umhverfið öruggara,“ sagði Saulo. Þá nefndi Tung hugmyndir um að stækka svæðið við sundlaugina og Saulo bætti við: „Maður sefur svo vel á eftir kalda pottinn og sauna!“ Báðir töluðu þeir um að yfirbyggður og upplýstur körfuboltavöllur myndi draga að ungmenni í Breiðholti og jafnvel frá öðrum hverfum.