Tvö grunnskólaverkefni hlutu gæðaviðurkenningu
Fulltrúar tveggja skóla í Reykjavík fengu gæðaviðurkenningar eTwinning þegar Rannís og Landskrifstofa Erasmus+ veittu nýsköpunarverðlaun og viðurkenningar í október.
Alþjóðlegt samstarf og skapandi nám
Gæðaviðurkenningar eru veittar fyrir vel unnin verkefni sem sýna fram á fagmennsku, frumkvæði og árangursríka notkun á eTwinning til alþjóðlegs samstarfs og skapandi náms. Þau sem fengu viðurkenningar voru þau Hjalti Sigurbjörnsson og Guðbjörg Bjarnadóttir kennarar í Ingunnarskóla fyrir hið frábæra verkefni Bátaleikarnir 25 og Rósa Harðardóttir úr Selásskóla fékk viðurkenningu fyrir þátttöku í sama verkefni. Verkefnið er samstarfsverkefni Ingunnar-, Selás- og Vesturbæjarskóla ásamt mörgum öðrum skólum í Evrópu og fer fram á hverju vori.
Gera myndbönd af keðjuverkandi röð
Þá fékk Sandra Grettisdóttir, kennari í Selásskóla, viðurkenningu fyrir verkefnið The european chain reaction sem fastur liður ár hvert í Selásskóla. Verkefnið snýst um keppni í að gera myndband af keðjuverkandi röð þar sem öll framkvæmd er í höndum nemenda.
Menntaskólinn á Tröllaskaga og Dósaverksmiðjan hlutu evrópsku verðlaunin í kennslu og tungumálum og Stapaskóli hlaut viðurkenningu fyrir eTwinning verkefni ársins 2025. Hægt er að lesa meira um verðlaunin og viðurkenningarnar á vefsíðu Rannís.