Þekking á eigin líkama er þema Viku6 í ár

Skóli og frístund

Hugmyndavinna fyrir Viku6

Þekking á eigin líkama er þema Viku6 nú þegar vikan er haldin í sjötta sinn. Eins og áður eru efnistökin í höndum unglinga í Reykjavík og er starfsfólk í skólum borgarinnar hvatt til að setja kynheilbrigði í forgrunn og bjóða upp á fjölbreytta kynfræðslu.

Jafnréttisskóli Reykjavíkur heldur utan um Viku6 hjá Reykjavíkurborg og útbýr fræðslupakka sem kennarar og starfsfólk getur nýtt sér til undirbúnings og framkvæmdar. Pakkarnir eru fjórir talsins og innihalda fræðsluefni sem miðaðir eru út frá aldri og þroska barna. 

Mikilvægt að börn og unglingar þekki sín mörk

Þekking á eigin líkama snýst um að hafa skilning á uppbyggingu og starfsemi líkamans, hvernig hann virkar, hvaða breytingar eiga sér stað í líkamanum og hvað það er sem hefur áhrif á tilfinningar og sjálfsmynd okkar. Þetta felur einnig í sér að kunna að þekkja og meta eigin mörk, þarfir og líkamlegar tilfinningar.

Hugmyndavinna fyrir Viku6
Unglingar í Reykjavík ákvarða hvaða málefni sé mikilvægast að taka fyrir hverju sinni. Myndin er tekin á einum vinnufundanna sem haldnir voru í aðdragandanum.

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að þekking á eigin líkama er mikilvæg fyrir börn og unglinga:

  • Sjálfsmynd og sjálfsöryggi: Þegar unglingar læra að þekkja og skilja líkama sinn, þá hjálpar það þeim að byggja upp sjálfstraust og jákvæða sjálfsmynd. Þetta gefur þeim möguleika á að taka ábyrgð á eigin heilsu og vellíðan.
  • Bætt líkamsvitund: Með því að öðlast þekkingu á eigin líkama verða unglingar betur í stakk búnir til að takast á við líkamlegar og andlegar breytingar sem fylgja æviskeiði þeirra. Þeir geta betur skilið hvernig tilfinningar og líkamleg einkenni tengjast, og þetta getur hjálpað þeim að bregðast við þeim á heilbrigðan hátt.
  • Öryggi og samþykki: Mikilvægasti þátturinn í þekkingu á eigin líkama er að vera meðvitaður um hvað er eðlilegt og heilbrigt þegar kemur að starfsemi líkamans og kynlífi. Þetta hjálpar unglingum að bera virðingu fyrir eigin mörkum og annarra, og að átta sig á hvað samþykki og öryggi felur í sér.
  • Forvarnir: Þegar unglingar hafa vitneskju um líkamann og kynlíf, er ólíklegra að þeir taki þátt í óöruggum kynferðislegum athöfnum. Þekkingin getur aukið meðvitund þeirra um áhættu og hjálpað þeim að taka heilbrigðar ákvarðanir varðandi kynlíf og kynheilbrigði.

Allt þetta stuðlar að því að börn og unglingar séu betur í stakk búnir til að fara í gegnum æviskeiðið með sjálfsöryggi og skilning, bæði á eigin líkama og í sambandi við aðra. Það gerir þeim kleift að taka upplýstar ákvarðanir sem stuðla að heilbrigði og vellíðan.

Kynfræðsla er aldursmiðuð

Orðið „kynfræðsla“ veldur fólki stundum áhyggjum og halda jafnvel að um sé að ræða kynlífsfræðslu fyrir ung börn en svo er ekki. Markmiðið er að veita börnum öryggi, skilning og sjálfstraust varðandi eigin líkama. Kynfræðsla miðast ávallt við aldur og þroska barna og fjallar í rauninni um allt sem viðkemur kynverund (e. sexuality) okkar. Unnið er út frá því að veita alhliða kynfræðslu og hér má sjá nokkur dæmi um hvað fjallað er um í alhliða kynfræðslu:

  • Sambönd og samskipti: Fjölskyldur, vináttur, heilbrigð og óheilbrigð sambönd.
  • Gildi, réttindi og menning: Barnasáttmálinn, réttindi, skilaboð sem við fáum frá samfélagsmiðlum.
  • Kyn og kynhlutverk: Fordómar, mismunun og jafnrétti.
  • Öryggi og ofbeldi: Samþykki og mörk, kynferðisleg áreitni og ofbeldi. 
  • Færni fyrir vellíðan og bættri heilsu: Ákvarðanataka, virðing, höfnun, hvar hægt er að fá stuðning og aðstoð.
  • Líkaminn og þroski: Rétt nöfn kynfæra, fjölbreyttir líkamar, kynþroski, hreinlæti.
  • Kynverund og kynhegðun: Ánægja og vellíðan, sjálfsfróun, að taka fyrsta skrefið.
  • Kyn og frjósemisheilsa: Getnaðar- og kynsjúkdómavarnir, meðganga, fæðing.

Áhugasöm geta skoðað síðu Viku6 þar sem er meðal annars er að finna fræðslumyndbönd og mismunandi fræðslupakka skipt niður eftir aldursstigum.