Þarf samvinnu og traust svo börnum og ungmennum farnist sem best

Nokkrir af þátttakendum á velferðarkaffi í dag ásamt fulltrúum í velferðarráði.
Hópmynd af fólki sem kom fram á velferðarkaffi ásamt fulltrúum í velferðarráði.

Skipst var á fróðleik og skoðunum á málefnum barna og ungmenna á velferðarkaffi, opnum fundi velferðarráðs, í morgun. Fundurinn fór fram í samfélagshúsinu í Bólstaðarhlíð, auk þess að vera sendur út í streymi í gegnum Facebook-síðu velferðarsviðs.

Á dagskrá fundarins voru sex erindi. Í upphafi hans var fjallað um hverju ríkið er að breyta til að koma í veg fyrir ofbeldi og bregðast við ofbeldi gagnvart börnum og á meðal barna. Þannig  fjallaði Margrét Gauja Magnúsdóttir, sérfræðingur í mennta- og barnamálaráðuneytinu, um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi á meðal barna. Þá kynnti Drífa Jónasdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu, niðurstöður skýrslu starfshóps um heilbrigðisþjónustu við börn sem eru þolendur ofbeldis.

Norðurlöndin sterkari ef þau vinna saman

Síðastliðið haust var haldin stór norræn ráðstefna í Hörpu undir nafninu Storybens Hjerte og Smerte. Ráðstefnan er haldin á tveggja ára fresti í norrænni borg og þótti takast afar vel til í Reykjavík. Þar var sérstaklega lagt upp með að vinna með og kynna tillögur frá ungmennum sem þau höfðu undirbúið á annarri ráðstefnu fyrr á árinu. Á meðal skipuleggjenda ráðstefnunnar voru þau Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Austurmiðstöðvar og Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Brúarinnar, en þau sögðu frá helstu áherslum hennar á velferðarkaffi í morgun. Þau sögðu að þema ráðstefnunnar – Sterkari saman – hafi verið vel í takti við niðurstöður hennar. Það hafi verið sameiginlegt álit þátttakenda á ráðstefnunni að Norðurlöndin þyrftu að stíga stærri skref í átt að samvinnu, sem myndi stuðla að því að börn og ungmenni öðluðust betri lífsgæði.

Í tímariti Storbyens hjerte og smerte má lesa viðtöl við lykilfyrirlesara og skoða myndir frá ráðstefnunni. 

Farsældin skilar sér í færri málum hjá Barnavernd

Þær Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, og Þyrí Halla Steingrímsdóttir, skrifstofustjóri hjá Barnavernd, sögðu frá þeim verkferlum sem farið er eftir þegar upp koma ofbeldismál sem tengjast börnum. Þær sögðu meðal annars frá því að færri mál hafi komið til skjala Barnaverndar árið 2024 en árið á undan. Svo virðist því sem farsældarlögin og sú samþætting mála sem þeim fylgja sé farin að skila þeim árangri að frekar sé leyst úr málum áður en þau komast á það stig að Barnavernd þurfi að koma að. Það sé jákvætt og í takti við áætlanir. Hins vegar væru ýmis mál á borði Barnaverndar ansi flókin úrlausnar. Þangað komi fleiri mál barna með afar alvarlegan vanda. Til dæmis barna sem beita ofbeldi, bera vopn og hafa jafnvel oftsinnis komist í kast við lög. Aukin samvinna, meðal annars við Samfélagslögregluna, sé jákvæð og nauðsynleg til að vinna með þeirra mál á farsælan hátt.  

Efla sjálfstraust og félagsfærni ungmenna

Elí Hörpu- og Önundarson, uppeldis- og meðferðarráðgjafi, sagði frá Unglingasmiðjum sem eru sértækt hópastarf á vegum Reykjavíkurborgar, ætlað unglingum sem eru félagslega einangraðir. Hann sagði einstaklinga í hópnum oft eiga það sameiginlegt að hafa orðið fyrir einelti eða útskúfun, oft séu þeir óframfærnir og í lítilli virkni fyrir utan skóla. Í Unglingasmiðjunum sé leitast við að skapa traust, trúnað og virðingu í samskiptum, auk þess að skapa góða stemning og tilfinninguna fyrir því að tilheyra hópi. Hann sagði líka frá Unglingabrú, sem er sambærilegt úrræði fyrir ungt fólk á menntaskólaaldri. Oft séu þau ár miklir umbreytingatímar í lífi ungs fólks og mikilvægt að þau eigi kunnugan stað að leita til í því umróti.

Meiri tengingu milli grunnskóla og framhaldsskóla

Fyrr í vikunni fundaði borgarstjórn með Reykjavíkurráði ungmenna og fulltrúum í ungmennaráðum borgarinnar. Þar lögðu ungmenni fram ýmsar tillögur sem þau telja til þess fallnar að bæta líf ungmenna í borginni. Tveir fulltrúar ungmenna, þau Bjarni Þór Jónsson og Magnea Þórey Guðlaugsdóttir, sem bæði eiga sæti í ungmennaráði Árbæjar og Holta, mættu á velferðarkaffi í morgun og sögðu frá einni tillögunni. Þau lögðu til að fundnar yrðu leiðir til að auka samstarf grunn- og framhaldsskóla í Reykjavík vegna framhaldsskólakynninga. Að þeirra mati er ekki nægileg tenging á milli skólastiganna sem þau telja nauðsynlegt svo fleiri taki farsæla ákvörðun varðandi framhaldsskóla.

Fundarstjóri á velferðarkaffi var Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Fundurinn í dag var vel sóttur en hátt í fimmtíu manns mættu á svæðið og um sextíu fylgdust með í streymi. Hægt er að nálgast upptöku af steyminu á Facebook-síðu velferðarsviðs