Einar D. G. Gunnlaugsson fæddist og ólst upp í braggahverfinu á Skólavörðuholti. Þótt braggarnir hafi vikið fyrir löngu, verða minningarnar ljóslifandi í meðförum þessa framúrskarandi sagnamanns. Við fengum að skyggnast með honum inn í fortíðina og heyra sögur af lífinu í bröggunum og eftirminnilegum prakkarastrikum, að ógleymdu leynifélaginu á Holtinu.
„Þetta hverfi var algjör paradís í uppvextinum, þrátt fyrir fátæktina og það var tekið upp á ýmsu,“ segir Einar og nostalgían leynir sér ekki þegar hann hugsar til baka. En byrjum á byrjuninni. „Ég fæddist 13. nóvember árið 1946 í bragga númer 36 og ólst þar upp. Hann var í fimm bragga röð, aftan við styttu Leifs heppna. Fólkið sem bjó í þeim kom allt utan af landi, enda var aðkomufólki úthlutað bröggum. Pabbi minn, Gunnlaugur Valdimarsson, var frá Flatey á Breiðafirði en móðir mín, Oddbjörg Sonja Einarsdóttir, fæddist í Færeyjum og kom til Íslands árið 1944 til að vinna á Kleppi. Í sumum bragganna bjuggu tvær fjölskyldur, hvor í sínum endanum, en við höfðum heilan bragga, við foreldrar mínir og bróðir minn heitinn, Yngvinn Gunnlaugsson. Faðir minn var mikið á sjó en móðir mín með mig heima í bragganum þar til ég varð fjögurra ára. Þá fór hún á vinnumarkaðinn.“
Mynd frá 1952. Þarna má sjá framhluta braggans sem Einar bjó í. Sjálfur er hann lengst til vinstri, þá má sjá Ásgeir Sigurðsson vin hans sem bjó í eina húsinu í braggahverfinu og loks bræðurna Ólaf og Sigurð Theodórssyni sem bjuggu í sömu braggaröð og Einar.
"Þetta hverfi var algjör paradís í uppvextinum, þrátt fyrir fátæktina"
Óvelkomin braggabörn
Einar segir börnin á Holtinu oft hafa verið í reiðileysi, sérstaklega strákana. „Stundum buðu leikfélagar mínir sem áttu heima „í húsunum“, í nærliggjandi götum við Holtið, mér að koma með sér heim í drekkutíma, en þá kom fyrir að mæður þeirra sögðu mér að fara bara heim og drekka þar. Sennilega var ástæðan lyktin sem var af fötunum mínum, því braggarnir voru ekki besta húsnæði sem völ var á. Í þeim var bæði raki og fúkkalykt og flest okkar braggabarnanna lyktuðum þannig. Í þessum aðstæðum var ekki annað að gera en standa upp frá borðum og bíða úti eftir að vinirnir væru búnir að drekka. Stundum labbaði ég líka í mjólkurbúðina sem var á horni Kárastígs og Frakkastígs og sníkti þar vínarbrauðsenda. Þeim var oftast hent en sumar kvennanna í búðinni geymdu endana fyrir okkur krakkana,“ segir Einar, sem minnist uppvaxtaráranna með mikilli hlýju þótt þau hafi oft verið krefjandi. Hann útskýrir að börnin á Holtinu hafi oft verið send í fóstur og fór hann til að mynda á Korpúlfsstaði og að Minni Ólafsvöllum, til skamms tíma. „Þegar mamma fór út að vinna var ég látinn í pössun til færeyskrar vinkonu hennar, sem var forstöðukona í eldhúsinu á Vífilsstöðum. Þar borðaði ég með starfsfólkinu en forvitinn sem ég var, flæktist ég þess á milli um allt. Ég heimsótti oft fólkið sem lá á sólbekkjunum bak við langa vegginn sem er tengdur spítalanum en allt varð vitlaust þegar upp komst um þessar heimsóknir mínar til berklasjúklinganna. Ég minnist þess þó ekki að hafa verið skoðaður af læknum þegar þessi umgengni komst upp.“
Einar hefur grúskað mikið í gömlum myndum. Sigurhans Vignir/Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Undir verndarvæng Guðmundar frá Miðdal og fjölskyldu
Mannlífið á Holtinu var litskrúðugt. Þar var meðal annars Listvinahús Guðmundar Einarssonar frá Miðdal og um átta ára aldur fór Einar að venja komur sínar þangað. „Einar minn, fyrst þú ert alltaf að þvælast hérna þá skaltu bara vinna dálítið,“ sagði Einar Guðmundsson leirkerasmiður, sonur Guðmundar frá Miðdal, við Einar einn daginn og sýndi honum til verka þar sem hrafnar, rjúpur og fleiri þekktir leirmunir voru í framleiðslu. „Mér fannst þetta mikil upphefð og fannst vinnan skemmtileg. Stundum fór ég líka með Banga, eins og Einar var kallaður, að ná í jarðleir í leirnámu við Norðlingaholt og af og til fékk ég að búa til smáhluti úr leir í höndunum. Ég man sérstaklega eftir öskubakka sem ég gaf móður minni. Bangi málaði hann og brenndi fyrir mig og mér fannst þetta flottasti öskubakki sem nokkurn tímann hafði verið búinn til,“ segir Einar. „Pabbi var mikið að heiman og mamma vann á vöktum í teppaverksmiðjunni Axminster, svo oft gekk ég um svangur yfir daginn. Þetta sáu feðgarnir og oft kallaði Bangi á mig og bað mig að fara með pakka til Lidíu fóstru sinnar á Skólavörðustíg, þar sem hún og Guðmundur bjuggu. Þegar ég kom til Lidíu sagði hún alltaf við mig: „Heppinn ertu Einar minn, ég var einmitt að fara að fá mér kaffisopa, viltu ekki koma inn og fá þér mjólkurglas og brauðsneið með mér.“ Í sakleysi mínu þóttist ég heppinn og þáði boðin en komst að því löngu síðar að allir þessir pakkar voru tómir! Bangi hringdi einfaldlega í Lidíu þegar hann sá ástandið á mér og bað hana að gefa mér eitthvað að snarla. Þau voru einstaklega góð við mig.“
Þarna má sjá Einar á æskuslóðunum, um sex ára aldurinn.
Yngsti viðskiptavinur vínbúðanna
Samskipti Einars við fjölskyldu Guðmundar frá Miðdal voru umtalsverð og þegar Erró, annar sonur Guðmundar, flísalagði innganginn í Iðnskólanum, dvaldi Einar mikið hjá honum. „Á endanum var hann kominn með stól fyrir mig og svo röbbuðum við um hvar flísarnar ættu að vera,“ segir Einar og brosir að minningunni. „Einu sinni kallaði Guðmundur svo á mig og ég fór til hans þar sem hann hafði aðstöðu við að búa til frumgerðir af styttunum sem voru framleiddar í Listvinahúsinu. Hann bað mig að fara í „Ríkið“ og láta afgreiðslumanninn fá brúnan bréfpoka sem hann hafði skrifað á: „Ágæti viðtakandi. Vinsamlega látið drenginn hafa 1 flösku af VAT 69, ég kem og greiði síðar. Guðmundur frá Miðdal“. Mér var afhent flaskan, tæplega níu ára guttanum, án athugasemda og svo braut afgreiðslumaðurinn pokann frá Guðmundi saman og stakk honum í peningakassann. Ég er sennilega yngsti viðskiptavinur ÁTVR frá upphafi,“ bætir hann við og skellihlær.
"þegar við komum heim á Holtið tóku foreldrarnir á móti okkur með kreppta hnefa. Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið"
Óvinsælir blöðrusalar
Sex ára gamall hóf Einar skólagöngu sína í Landakotsskóla þar sem móðir hans hafði fengið vinnu í þvottahúsinu Ægi á Bárugötu. Göngutúrinn í og úr skóla gat því verið langur fyrir litla fætur en þá var gaman að stoppa við Tjörnina til að leika sér á heimleiðinni og jafnvel gleyma sér þar fram eftir degi. Einar á þó ekki góðar minningar frá Landakotsskóla og átta ára fluttist hann í Miðbæjarskólann þar sem honum líkaði betur.
En víkur þá sögunni aftur að lífinu á Holtinu þar sem ýmislegt var brallað. „Þegar ég var um átta ára gamall var rekin á Frakkastígnum Ella Ling sjoppan og seldir þar Freyju staurar og súkkulaðivindlar. Einhvern tímann vorum við að velta fyrir okkur hvernig við gætum útvegað okkur peninga til að nálgast þetta hnossgæti og þá sagði vinur minn að mamma hans ætti fullt af blöðrum heima. Við náðum í þær og seldum öllum krökkunum blöðrurnar á fimm aura stykkið. Við fórum svo með peningana í sjoppuna en þegar við komum heim á Holtið tóku foreldrarnir á móti okkur með kreppta hnefa. Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið en í ljós kom að vinur minn hafði stolið smokkapakka frá mömmu sinni. Það varð allt vitlaust og okkur var veitt ráðning, en við fengum súkkulaðivindlana,“ segir hann og hlær dátt.
Í bragganum vinstra megin við styttu Leifs Eiríkssonar fæddist Einar árið 1946 og bjó þar til ársins 1957. Guðbjörg María Benediktsdóttir/Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Ógnvekjandi inntökuskilyrði
Strákarnir í braggahverfinu voru með leynifélag og voru meðlimir á aldrinum 7-12 ára. „Inngönguskilyrðið var að viðkomandi varð að klifra upp marmaraskipið á styttu Leifs heppna og upp á styttuna þar til hann gat lagt lófann ofan á hjálm Leifs. Ég var átta ára þegar ég lagði í þessa þolraun og sem betur fer tókst hún þrátt fyrir að marmarinn væri sleipur vegna rigningar og ég í gömlu, góðu gúmmískónum. Sem betur fer slasaðist enginn af strákunum við þetta klifur þótt það væri stórhættulegt, ég fæ ennþá hálfgerðan hroll þegar ég sé styttuna,“ rifjar Einar upp og hristir höfuðið. „Þegar maður var kominn í leynifélagið mátti maður til dæmis fara með að stela rófum í Vatnsmýrinni og stela dúfum frá strákunum sem áttu heima í „húsum“ í kringum Holtið. Einnig máttum við vera á fundum við kertaljós í garðinum bak við Listvinahús Guðmundar frá Miðdal.“
Einar fær enn hálfgerðan hroll þegar hann sér styttu Leifs Eiríkssonar, minnugur þess þegar hann klifraði átta ára gamall upp á styttuna til að öðlast inngöngu í leynifélagið á Holtinu.
Þvottabalar…eða bátar?
Listinn yfir uppátæki félaganna virðist ótæmandi. „Á Holtinu var risastór vatnstankur, mjög hár og torfklæddur að utan. Ofan á honum miðjum var laus stálplata og við gældum oft við að losa plötuna og synda ofan í, en sem betur fer varð ekkert úr því,“ segir Einar. Ýmsar hugmyndir voru hins vegar framkvæmdar, við mismikla gleði fullorðna fólksins. „Á Holtinu var sameiginlegt þvottahús fyrir konurnar og þar höfðu þær nokkra stóra trébala þar sem þær létu hvítt tau liggja í skolun. Rétt hjá var ægilega djúp kvos og niðurfall í botninum og einu sinni þegar rigndi mikið stífluðum við strákarnir niðurfallið. Þegar tjörn hafði myndast sturtuðum við tauinu úr bölunum, rúlluðum þeim niður eftir og notuðum sem báta. Það varð auðvitað allt brjálað! Við reyndum að halda okkur úti á miðjum pollinum eins lengi og við gátum en á endanum óðu karlarnir bara út í og náðu í okkur. Þetta var ekki vinsælt,“ bætir Einar við og glottir að þessum skrautlegum minningum.
Ásýnd borgarinnar hefur breyst gríðarlega á æviskeiði Einars og þegar hann bjó á Holtinu var Hallgrímskirkja bara kapella. „Þangað fór maður bara til að fá biblíumyndir. En það var svo merkilegt að þegar maður kom inn í kapelluna hneigði maður sig alltaf þegar maður fór framhjá Kristsstyttunni, ósjálfrátt. Þar inni var ég skírður tveggja ára gamall,“ segir hann en bætir við að nafninu fylgi sorgarsaga. „Besta vinkona móður minnar var eitt sinni að fara í mjólkurbúðina á horni Kárastígs og Frakkastígs, hún var með son sinn í kerru en bremsan gaf sig og kerran rann undir einn af þessum Reykjavíkurtrukkum sem voru mikið notaðir í grjótflutning og fleira. Drengurinn lést og áður en ég var skírður bað móðir hans móður mína að setja nafnið hans hjá mér. Svo fór og D. G. ið mitt stendur fyrir Davíð Georg.“
"Þegar tjörn hafði myndast sturtuðum við tauinu úr bölunum, rúlluðum þeim niður eftir og notuðum sem báta. Það varð auðvitað allt brjálað!"
Listvinahús Guðmundar frá Miðdal hægra megin á myndinni. Skip á Faxaflóa í bakgrunni, meðal annars herskip og kaupskip, einnig mögulega dönsk varðskip. Mynd: Karl Christian Nielsen/Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Hjón með ýmsa hæfileika
Einar rifjar upp ótal sögur og hér er aðeins sagður hluti þeirra. Á fullorðinsárum gerðist hann tækniteiknari eftir að hafa orðið að hverfa frá bakaranámi í Sveinsbakaríi vegna ofnæmis fyrir hveitikími. Hann bjó á nokkrum stöðum í Reykjavík og Hafnarfirði, var um tíu ára skeið á Hornafirði þar sem hann var fréttaritari Morgunblaðsins, en býr nú með konu sinni, Þóru Margréti Sigurðardóttur, í Hraunborgum í Grímsnesi. Þar verja þau stærstum hluta ársins en sækja sólina til Tenerife yfir dimmustu mánuðina. Þau eru hætt í hefðbundinni dagvinnu en eru sannkallaðir þúsundþjalasmiðir og selja til dæmis heimagert brauð og sultur, sósur og súrar gúrkusneiðar, prjónavörur og myndir sem Einar málar og setur á póstkort, auk þess sem þau leigja gestahús til ferðamanna. Salan fer fram á netinu og á markaðinum í þjónustumiðstöðinni í Hraunborgum á sumrin, en á haustin tekur við annars konar vertíð, þar sem þau baka og selja um sex þúsund sörur fyrir jólin. Engin lognmolla í lífi þeirra hjóna, sem eignuðust þrjú börn og eiga sex barnabörn og fjögur barnabarnabörn.
"Breytingarnar á borginni síðan ég var að alast upp eru ótrúlegar en mér finnst Reykjavík nútímans frábær!"
Hér má sjá grunnmynd sem tækniteiknarinn Einar bjó til af bragganum sem hann bjó í.
Nostalgía á Skólavörðuholtinu
Þótt Einar sé fluttur í sveitasæluna heimsækir hann heimaslóðirnar oft. „Þegar ég kem á Skólavörðuholtið dett ég alveg í nostalgíu. Breytingarnar á borginni síðan ég var að alast upp eru ótrúlegar en mér finnst Reykjavík nútímans frábær!“ segir hann með áherslu. „Það eina sem ég óttast er að þéttingin verði aðeins of mikil og svo finnst mér slæmt að aðgengi að Laugaveginum var takmarkað. Uppáhaldsstaðurinn minn í borginni er samt miðborgin eins og hún leggur sig og mér finnst veitingahúsaflóran dásamleg,“ bætir hann ákveðið við.
Það er auðvelt að gleyma sér löngum stundum yfir skemmtilegum sögum Einars en við kveðjum þennan frábæra sögumann að sinni og þökkum honum kærlega fyrir að leyfa okkur að skyggnast með honum inn í Reykjavík fyrri tíma.
Loftmynd sýnir hvernig braggahverfið skar sig úr meðal húsanna. Sigurhans Vignir/Ljósmyndasafn Reykjavíkur.