Takk fyrir komuna á Barnamenningarhátíð!

Fjöldi fólks tók þátt í dansatriði Dans Afrika í Ævintýrahöllinni
Fjöldi fólks tók þátt í dansatriði Dans Afrika í Ævintýrahöllinni

Ætla má að yfir 20 þúsund manns hafi sótt 400 viðburði á dagskrá Barnamenningarhátíðar sem lauk í gær.

Barnamenningarhátíð í Reykjavík fór fram um alla borg og gekk sérlega vel fyrir sig. Sýningar á hátíðinni voru vel sóttar og börnin nutu þess að sýna og njóta alls þess sem í boði var.

Út að leika

Yfirskrift hátíðarinnar í ár var „út að leika" og unnu börn alls konar verkefni sem tengdust henni. Hljómsveitin Inspector Spacetime samdi lagið Hlaupasting í samvinnu við nemendur í 4. bekk og ætlað þakið að rifna af Hörpu þegar lagið var frumflutt á opnunarhátíð Barnamenningarhátíðar.

Inspector Spacetime flytja lag Barnamenningarhátíðar 2025
Inspector Spacetime flytja lag Barnamenningarhátíðar 2025 í Hörpu.

Boðið var upp á stórar og smáar sýningar og fjölbreytta listviðburði fyrir börn og með börnum. Óhætt er að segja að börn tóku að miklu leyti yfir menningarlíf borgarinnar þá sex daga sem hátíðin stóð yfir og sýndu verk sín á virtum menningarstofnunum.

Metaðsókn á Ævintýrahöllina

Hátt í 8000 manns sóttu dagskrá Ævintýrahallarinnar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum um helgina. Fólk á öllum aldri fjölmennti og tók þátt í skemmtilegri dagskrá þar sem boðið var upp á dans, söng, tónlist, - og svo voru öll dýrin í garðinum í hátíðarskapi. 

Selirnir Garðar og Kópur létu fara vel um sig í selalauginni og nutu dagskrárinnar.
Selirnir Garðar og Kópur létu fara vel um sig í selalauginni og nutu dagskrárinnar.

Börnin fengu að fylgjast með þegar dýrunum var gefið að borða og vakti það mikla athygli. Hringleikur var með fyrsta flokks sirkusatriði á laugardeginum, Dans Brynju Péturs sýndu nokkur vel valin spor og Dans Afrika var með taktfasta trommusveit og dansara sem tóku glæsilega dansa.

Tufti skemmti börnunum í Ævintýrahöllinni í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum um helgina.
Tufti skemmti börnunum í Ævintýrahöllinni í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum um helgina.

Á sunnudeginum var svo teiknismiðja með Brian Pilkington og Tröllið Tufti sló svo í gegn þegar hann mætti í garðinn. Hann heilsaði upp á börnin, reyndi að nappa húfunum þeirra og gerði tilraunir að fá bita af nesti eða pylsum sem börnin voru að gæða sér á, en allt án árangurs. 

Takk fyrir!

Nemendur í Dans Brynju Péturs sýndu glæsilegan dans í Ævintýrahöllinni.
Nemendur í Dans Brynju Péturs sýndu glæsilegan dans í Ævintýrahöllinni.

Fjöldi fólks hefur unnið sleitulaust við undirbúning og skipulagningu Barnamenningarhátíðar, starfsfólk Reykjavíkurborgar á leikskólum, í grunnskólum, hjá frístundamiðstöðvum, menningarstofnunum og einstaklingar. Hátíðin væri ekki jafn glæsileg og raun ber vitni ef þeirra nyti ekki við. Takk fyrir ykkar framlag.

Börn fengu að skapa og njóta með fjölskyldu og vinum, takk fyrir ykkar framlag, það er ómetanlegt.

Takk fyrir komuna, við sjáumst að ári!