Styrkur til að auka öryggi hinsegin fólks í Reykjavík

Þátttakendur í Gleðigöngu Hinsegin daga í Reykjavík
Þátttakendur í Gleðigöngu Hinsegin daga í Reykjavík

Styrkurinn er veittur til verkefnis sem miðar að því að auka öryggi hinsegin fólks og hljóðar upp á rúmar 9,7 milljónir króna (489.000 danskar krónur) og er til tveggja ára. 

 

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa í samvinnu við samtökin Nordic Safe Cities hefur hlotið styrk úr norræna LGBTI-sjóðnum hjá NIKK sem er samnorræn samstarfsstofnun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina. Þetta er í fyrsta sinn sem veittur er styrkur til þessa verkefnis.

Hótanir og neteinelti

Hatur og áreitni í garð hinsegin fólks á netinu getur birst með ýmsum hætti allt frá niðrandi athugasemdum til hótana og neteineltis sem getur valdið fólki vanlíðan, dregið fram skaðlegar staðalímyndir og alið á rangfærslum um hópinn. Með fræðslu má sporna gegn þessari þróun en ljóst er að ganga þarf lengra í átt að því að ná markmiðinu. Reykjavík er fyrst borga á Norðurlöndunum sem fær styrk til að auka öryggi hinsegin fólks.

Styrknum verður varið í að 

  • greina hatur og áreitni í garð hinsegin fólks á netinu
  • útbúa verkfærakistu og aðgerðaáætlun sem stuðlar að auknu öryggi hinsegin fólks
  • kynna verkefnið og yfirfæra á öll Norðurlöndin

Aðgerðaáætlunin mun fela í sér tilmæli og úrræði fyrir Reykjavík til að bregðast við hatri og ofbeldi tengdu kyni, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu eða öðru. Í framhaldinu verður niðurstöðum verkefnisins miðlað til annarra borga sem geta nýtt sér upplýsingarnar til þess að auka öryggi hinsegin fólks á öllum Norðurlöndunum.

Öruggari borg fyrir hinsegin fólk

Styrkurinn er mikilvægur liður í því að efla enn frekar samstöðu og stuðning borgarinnar við hinsegin fólk en mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa hefur staðið fyrir Regnbogavottun. Markmiðið með vottuninni er að gera starfsemi og þjónustu á vegum Reykjavíkurborgar hinseginvænni með fræðslu um hinsegin fólk, staðalmyndir og fordóma. Nú hafa um 120 starfsstaðir Reykjavíkurborgar fengið Regnbogavottun.

Samstarfsaðilar á Norðurlöndunum

Leiðandi þátttakendur í verkefninu eru Reykjavíkurborg, Nordic Safe Cities, samtök borga sem vinna að því að auka öryggi í borgum á Norðurlöndunum,  Cybernauterne í Danmörku, samtökum sem sérhæfa sig í netöryggi og samfélagsmiðlum, og C-REX, miðstöð sem rannsakar öfgahyggju, hatursglæpi og pólitískt ofbeldi. Þá verður einnig myndaður sérfræðingahópur sem mun samanstanda af þátttakendum frá samtökum hinsegin fólks, rannsakendum og stefnumótendum á Norðurlöndunum. 

Hér má lesa meira um verkefnið.