Stórbættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu frá og með í dag

Róbert Reynisson
Loftmynd af Strætó að keyra í kringum gróðursælt hringtorg.

Strætó stóreykur þjónustu sína frá og með deginum í dag, sunnudeginum 17. ágúst 2025. Með þessari breytingu verður mikilvægt skref stigið í átt að betri og aðgengilegri almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfall íbúa sem búa innan 400 metra frá stoppistöð með 10 mínútna tíðni á annatíma fer úr um 18% í rúmlega 50%.

Markmiðið með breytingunum er að bæta aðgengi íbúa að samgöngum með góðri tíðni og auka þannig notkun almenningssamgangna.

Þjónustuaukningin er liður í Samgöngusáttmálanum og rekstraráætlun Strætó, auk þess að vera undirbúningur fyrir Nýtt leiðanet sem tekur gildi árið 2031. Nú þegar breytingarnar taka gildi er mikilvægt að notendur kynni sér þær vel.

Við stórbætum þjónustuna

  • Aukin þjónusta í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
  • Lengri þjónustutími á kvöldin.
  • Styttri ferðatími frá Kópavogi og Breiðholti með nýrri forgangsakrein.
  • Lengri þjónustutími á Kjalarnesi og stóraukin tíðni.

Leiðavísir hefur verið uppfærður og því geta notendur fundið bestu leiðina fyrir sig í “Skipuleggja ferð” á vef og í appi Strætó.

Hvatning til að velja vistvænan og hagkvæman ferðamáta

"Ég fagna innilega þessum mikilvæga áfanga í samgöngumálum borgarinnar,” segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri. “Aukið framboð og tíðni ferða með Strætó er stórt skref í átt að betri og aðgengilegri almenningssamgöngum fyrir alla íbúa. Þetta eru ekki einungis umbætur fyrir þá sem nú þegar treysta á Strætó í daglegu lífi, heldur líka hvatning fyrir fleiri til að velja vistvænan og hagkvæman ferðamáta.

Með því að styrkja almenningssamgöngur leggjum við grunn að sjálfbærri borg, drögum úr umferð og kostnaði heimila, bætum loftgæði og gerum Reykjavík að enn betri og grænni borg til framtíðar.“

Sjáumst í Strætó!

Nánari upplýsingar um þjónustuaukningu Strætó.

Loftmynd af Strætó að keyra á götu, innan um grænan gróður. Bílastæði til hægri á mynd.