Stendur þú fyrir Borgarhátíð Reykjavíkur 2026-2028?

Róbert Reynisson
Tvö "skrímsli" á Listahátíð, mynd tekin við lestina á Miðbakka. Fólk að fylgjast með.

Menningar- og íþróttaráð Reykjavíkurborgar auglýsir eftir umsóknum frá hátíðum sem fram fara í borginni til að bera titilinn Borgarhátíð Reykjavíkur 2026-2028. Í titlinum felst samstarfsamningur til þriggja ára með fjárframlagi og annarri þjónustu. Opið er fyrir umsóknir á Mínum síðum Reykjavíkurborgar og er umsóknarfrestur til og með 31. maí næstkomandi.

Markmið Borgarhátíðasjóðs er að styðja samfellu, framþróun og rekstrarlegan grundvöll hátíða í Reykjavík sem þegar hafa sannað ótvírætt gildi sitt hvað varðar þýðingu fyrir menningarlífið í borginni, alþjóðleg tengsl, jákvæð áhrif á ferðamennsku og ímynd Reykjavíkur auk efnahagslegs umfangs.

Hátíðir sem uppfylla eftirtalin skilyrði eiga möguleika á að vera valdar borgarhátíðir Reykjavíkur:

  1. eru til eflingar menningar og mannlífs í Reykjavík.
  2. eru opnar almenningi, aðgengilegar og sýnilegar.   
  3. hafa verið haldnar að lágmarki þrisvar sinnum.   
  4. eru haldnar árlega.   
  5. hafa alþjóðlega tengingu. 
  6. standa yfir í þrjá daga eða lengur.   
  7. hafa faglega stjórn.   
  8. viðhafa góða stjórnarhætti og rekstrarlegt gegnsæi.
  9. fullnægja kröfum um fagmennsku og gæði.
  10. styðja við menningarstarf í hverfum borgarinnar.   
  11. stuðla að atvinnusköpun.   

Jafnframt er litið til atriða eins og nýsköpunar, barnamenningar, aðsóknar, stöðugleika, þróunarmöguleika, tímasetningar innan ársins, möguleika hátíðanna á eigin tekjuöflun, umhverfismála, samstarfs við borgarstofnanir og þess að hátíðirnar endurspegli fjölbreytileika samfélagsins bæði varðandi gesti og þátttakendur.

Umsækjendum er bent á að kynna sér Menningarstefnu Reykjavíkurborgar 2021-2030.