Steinunn Kristín Guðnadóttir hlýtur námsstyrk Ellýjar Katrínar 2025
Steinunn Kristín Guðnadóttir hefur hlotið námsstyrk Ellýjar Katrínar 2025. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Hjálmar Sveinsson varaformaður umhverfis-og skipulagsráðs afhentu styrkinn í dag í Höfða. Steinunn er stödd erlendis vegna náms en faðir hennar, Guðni Elísson tók við styrknum fyrir hönd dóttur sinnar.
Steinunn hyggst rannsaka í meistaraverkefni sínu hvernig íslensk nútímalist vinnur með hugmyndir um loftslagsmál og hvernig slík verk varpa ljósi á skynjun samfélagsins á loftslagsvánni. Megináhersla verður lögð á sjónræna list sem tekst á við loftslagsvá og umhverfismál, það er myndlist, vídeóverk, ljósmyndun, gjörningalist og sviðslist. Verkefnið tengist einnig Reykjavíkurborg sem loftslags- og menningarborg, þar sem list og stefnumótun í loftslagsmálum mætast og móta hvort annað.
Markmið rannsóknarinnar er að auka skilning á því hvaða viðhorf til loftslagsbreytinga birtast í íslenskri list og hvernig þau geta haft áhrif á stefnumótun og hvatningu til loftslagsaðgerða. Leiðbeinendur Steinunnar eru Helga Ögmundardóttir og Magnús Örn Sigurðsson.
Tólf umsóknir bárust
Námsstyrkur Ellýjar Katrínar var stofnaður árið 2024 til að heiðra minningu Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur, fyrrum sviðsstjóra, borgarritara og leiðtoga í loftslags- og umhverfismálum í Reykjavík. Styrkurinn er veittur árlega til meistaraverkefna til að hvetja til framhaldsnáms í umhverfis- og loftslagsmálum og efla þannig þekkingu á málefninu til framtíðar.
Alls bárust tólf umsóknir um styrkinn. Í valnefnd sátu: Hrönn Hrafnsdóttir deildarstjóri loftslagsmála á umhverfis- og skipulagssviði (formaður), Brynhildur Davíðsdóttir prófessor við Háskóla Íslands, Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi. Verkefnisstjóri valnefndar var Margrét Lára Baldursdóttir, sérfræðingur á umhverfis- og skipulagssviði.