Staða mönnunar og biðlista í leikskólum betri en fyrir ári

Börn í leikskóla

Staða biðlista og mönnunar í leikskólum Reykjavíkur er mun betri en fyrir ári. Þann 3. september voru alls 467 börn 12 mánaða og eldri á biðlista eftir leikskólaplássi en þau voru 653 á svipuðum tíma í fyrra. Þá vantar í 52 stöðugildi á leikskólum borgarinnar en í fyrra vantaði í 101 stöðugildi.

18 mánaða og eldri sem bíða eftir leikskólaplássi eru ný á biðlista

Af þeim 467 börnum 12 mánaða og eldri sem eru á biðlista eftir leikskólaplássi voru 74 börn 18 mánaða eða eldri þann 1. september síðastliðinn en í fyrra voru þau 183. Þau sem eru 18 mánaða og eldri og eru á biðlista nú hafa öll bæst við listann frá því að stóru úthlutuninni lauk í vor þegar öllum á þeim aldri var boðin vistun.