Spennandi sögur af framtíðinni

Skapandi gleði í Reykjavík

Sköpunarkrafturinn í Reykjavík mun birtast í fjölmörgum myndum á  fundi um athafnaborgina sem borgarstjórinn í Reykjavík stendur fyrir á föstudag.  Á dagskránni sem hefst kl. 9 í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur stíga margir fyrirlesarar á stokk sem rýna í framtíðina og sýna fjölmargt sem nú þegar er á teikniborðinu. 

Þórey Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Vísindagarða mun segja frá nýju djúptæknisetri sem rísa mun í Vatnsmýrinni, en með tilkomu þess um Reykjavík styrkjast enn frekar sem vísinda- og nýsköpunarborg, sem laðar að hæfileikafólk, rannsóknarverkefni og fjárfestingar til Íslands. Þórey segir að hér gefist gott tækifæri til að hlýða á spennandi sögur af framtíðinni. 

Nýjungar á Granda og í Miðborginni

Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnarformaður Sjávarklasans mun einnig gefa innsýn í framtíðina, en fyrirhuguð nýbygging Sjávarklasans á Grandanum, “100% húsið”, mun styðja enn betur við bláa nýsköpun.  „100% húsið verður vitnisburður fyrir þá framúrskarandi nýsköpun og sjálfbærni sem er til staðar í íslenskum sjávarútvegi,“ segir Þór. 

René Boonekamp, frumkvöðull hjá Haus, sem er samfélag fyrir skapandi fólk mun segja frá nýrri aðstöðu sem verið er að opna við Hlemm. René hefur verið leiðandi í starfsemi Hafnar.Haus, sem hefur dafnað vel í Hafnarhúsi.

Róbert Aron Magnússon, framkvæmdastjóri Kolaportsins, segir frá endurnýjuðum krafti í starfsemi þessa fjölbreytta almenningsmarkaðar í miðborginni. Róbert segir að nú séu á teikniborðinu hugmyndir fyrir jólamarkað og mun hann fræða okkur um þær. 

Þjónusta í hverfum borgarinnar

Góður staðarandi í hverfum borgarinnar verður áhersluþáttur á fundinum í ár. Peter Bur Andersen, stjórnandi dönsku arkitektastofunnar BRIQ og ráðgjafi í borgarþróun fjallar um blöndun borgarinnar, mikilvægi skýrrar stefnu og forgangsröðunar, samstarf borgar og þróunaraðila og hvernig slíkt samstarf getur skapað aðlaðandi og lifandi borgarumhverfi. Leitað verður svara við spurningunni hvernig hleypa megi lífi í atvinnu og þjónustuhúsnæði og skapa sterkan staðaranda í hverfum borgarinnar. 

Reykjavík er í samkeppni við aðrar borgir

„Athafnaborgin er fyrir fólk og fyrirtæki. Við viljum byggja upp borg með áhugaverðum atvinnutækifærum þannig að menntun fólks fái notið sín og það velji Reykjavík umfram aðrar borgir sem við erum sannarlega í samkeppni við,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri. 

Kynningarfundur borgarstjóra er opinn en gestir eru hvattir til að skrá sig til að auðvelda undirbúning. 

Tengt efni: