Sorphirða yfir hátíðirnar

Starfsfólk sorphirðunnar verður aukalega að störfum sunnudaginn 21. desember að hirða almennt sorp og matarleifar í Vesturbæ og plast og pappír í Hlíðum, Túnum og Laugardal. Mynd/Róbert Reynisson
Starfsfólk að vinna að sorphirðu um vetur.

Jól og áramót eru hefðbundinn álagstími hjá Sorphirðu Reykjavíkur og einnig eru grenndarstöðvar mikið notaðar á þessum árstíma. Það er því gott að hafa í huga til að allt gangi vel fyrir sig að flokka vel allan úrgang og nýta plássið í tunnunum vel. Boðið verður upp á sérstaka gáma fyrir flugeldarusl eftir áramótin á tíu stöðum í borginni.

Þjónusta sorphirðu yfir jól og áramót

Sorphirða hefur gengið vel að undanförnu þrátt fyrir aukið magn úrgangs. Síðasti vinnudagur fyrir jól er 23. desember. Vinna hefst aftur á þriðja í jólum, laugardaginn 27. desember, og verður unnið alla daga fram til klukkan 10 á gamlársdag. Sorphirða hefst aftur á nýju ári þann 2. janúar og einnig verður unnið laugardaginn 3. janúar.

Þjónusta á grenndarstöðvum um jólin

Notkun á grenndar- og endurvinnslustöðvum Sorpu eykst jafnan á þessum árstíma. Búið er að skipuleggja aukavaktir í kringum hátíðirnar. Áhersla verður lögð á að tæma gámana fyrir pappír og plast oftar en venjulega þar sem þessir flokkar eru líklegastir til að safnast upp í kringum þessa miklu gjafahátíð. Aukalosanir verða bæði fyrir jól og á milli jóla og nýárs á þessum gámum.

Gámar fyrir pappír og plast eru nú staðsettir á öllum stærri grenndarstöðvum. Við hvetjum fólk jafnramt til að nýta sér gáma fyrir glerumbúðir og málma í grenndargámakerfinu. 

Gámar fyrir flugeldaleifar

Reykjavíkurborg ætlar að bjóða upp á gáma fyrir flugeldarusl á tíu grenndarstöðvum um alla borg. Gámarnir verða settir upp dagana fyrir gamlársdag svo þeir verða klárir til þess að taka á móti flugeldaruslinu á nýársdag. Frá og með 2. janúar verður tekið á móti flugeldaleifum á endurvinnslustöðvum Sorpu á hefðbundnum opnunartíma. Sem fyrr fara ósprungnir flugeldar fara í spilliefnagáma á endurvinnslustöðvum Sorpu.

Gæta þarf vel að því að það leynist ekki glóð í tertum eða öðrum flugeldum og gefa þeim tíma til að kólna áður en þeim er hent í gáminn vegna eldhættu. Glóð eða ósprunginn flugeldur geta orðið til þess að það kvikni í sorphirðubílum. Ósprungnum flugeldum á að skila á endurvinnslustöðvar Sorpu.

Kort yfir staðsetningar á flugeldaruslgámum

Staðsetningarnar eru þessar:

  • Vesturbær – grenndarstöð við Hofsvallagötu (Vesturbæjarlaug)
  • Miðborg -  grenndarstöð Eiríksgötu (við Hallgrímskirkju)
  • Hlíðar - grenndarstöð við Flókagötu (Kjarvalstaði)
  • Laugardalur - grenndarstöð við Sundlaugaveg (Laugardalslaug)
  • Háaleiti-Bústaðir - grenndarstöð við Sogaveg
  • Breiðholt – grenndarstöð við Austurberg
  • Árbær/Selás – grenndarstöð við Selásbraut
  • Grafarvogur – grenndarstöð í Spöng
  • Grafarholt-Úlfarsárdalur – grenndarstöð Þjóðhildarstíg (við Krónuna)
  • Kjalarnes – við grenndarstöð

Gleðileg úrgangsjól og takk fyrir að flokka!