SORPA og SSH verðlaunuð fyrir samræmt flokkunarkerfi

Sorphirða

Ásdís Ólafsdóttir, Jón Viggó Gunnarsson, Gunnar Dofri Ólafsson, Ísól Ómarsdóttir, Birkir Rútsson, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Friðrik Klingbeil Gunnarsson, Valgeir Páll Björnsson, Tómas. G. Gíslason og Katrín Dóra Þorsteinsdóttir.
Fólk á sviði.

Sorpa bs. og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hlutu Teninginn, viðurkenningu Verkfræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi verkefni eða framkvæmd, fyrir samræmt flokkunarkerfi úrgangs á höfuðborgarsvæðinu. Teningurinn var afhentur á Degi verkfræðinnar á Hótel Nordica fyrir helgi.

„Með sérsöfnun á matarleifum var stigið stórt skref í samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Mælingar á magni matarleifa í blönduðum úrgangi og hreinleiki matarleifa sýna að algjör hugarfarsbreyting hefur orðið hjá íbúum. Með skýrum skilaboðum náðist að breyta viðhorfum hvað varðar hlutverk einstaklinga og heimila í því að draga úr umhverfisáhrifum úrgangs,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.

„Innleiðing hringrásarhagkerfis er ein öflugasta aðgerð gegn loftslagsbreytingum. Það hefur mikla þýðingu í að bæta hagkerfið, leiða það í átt að sjálfbærni og betri nýtingu á auðlindum,“ segir ennfremur í umsögn dómnefndar.

Góður árangur verkefnisins

Markmið sveitarfélaganna með samræmdri flokkun var ávallt það að hún myndi einfalda upplýsingagjöf til íbúa varðandi tilhögun flokkunar og sorphirðu og „myndi leiða til meiri og betri flokkunar á endurvinnsluefnum, sem styður við að markmið stjórnvalda um endurvinnslu verði náð,” eins og fram kemur í minnisblaði sveitarfélaganna til SSH.

„Góðan árangur verkefnisins má ekki síst þakka stýrihópi sem undirbjó verkefnið og var skipaður tæknimenntuðu fólki sem starfar hjá Sorpu bs og sveitarfélögunum sem að fyrirtækinu standa,” segir í umsögn dómnefndar.

Árangur verkefnisins fór fram úr bæði markmiðum og björtustu vonum hvort sem litið er til hugarfarsbreytingar, breyttrar hegðunar eða jákvæðra áhrifa á bæði heildarmagn úrgangs frá heimilum, magni flokkaðs úrgangs, endurvinnsluhlutfalls, hreinleika eða skilvirkni flokkunar. 

Nokkrar staðreyndir um innleiðinguna í Reykjavík

  • Undirbúningur að tunnuskiptum hófst snemma árs 2022 með greiningarvinnu og undirbúningi að innkaupum en fjölga þurfti sorphirðubílum og kaupa tunnur. 
  • Notast var við dreifingarlíkan til að áætla innkaup og tryggja að aðföng bærust á réttum tíma svo ekki þyrfti að seinka eða tefja dreifingu á ílátum. 
  • Tunnuútskiptin í Reykjavík stóðu yfir frá því í maí til september 2023
  • Unnið var sex daga vikunnar til að tryggja að næðist að ljúka tunnuskiptum áður en færi að hausta.
  • Skipta þurfti um flokkunarkerfi hjá um 55.000 heimilum í borginni og afhenda öllum körfu og poka til að flokka í matarleifar.
  • Alls rúmlega 18.000 staðsetningar en lang flestir borgarbúa búa í fjölbýli eða yfir 80%.
  • Fækkað var um liðlega 23.500 tunnur og ker. Aðallega ílát undir blandaðan úrgang sem þurfti ekki þegar flokkun hófst. Elstu tunnur sem teknar voru úr umferð voru frá níunda áratugnum (1986) og voru þær sendar í plastendurvinnslu til að framleiða nýjar sorptunnur. Nýrri tunnur voru settar í geymslu þangað til þær fá aftur hlutverk við heimili borgarbúa.
  • Dreift var um 34.400 nýjum ílátum undir endurvinnsluefni; matarleifar, pappír og plast og tvískiptar tunnur undir matarleifar og blandaðan úrgang.
  • Í dag eru tæplega 67.000 tunnur og ker í þjónustu við borgarbúa auk tæplega 400 djúpgáma.

Markmið Teningsins er að vekja athygli á vel útfærðum og áhugaverðum verkefnum sem verkfræðingar og tæknifræðingar vinna að. Viðurkenningin er veitt fyrir verkefnið í heild og er það eigandi (bakhjarl) verkefnisins sem hana hlýtur.

Á meðfylgjandi mynd frá verðlaunaafhendingunni eru frá vinstri til hægri: Ásdís Ólafsdóttir svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins, Jón Viggó Gunnarsson framkvæmdastjóri SORPU, Gunnar Dofri Ólafsson sviðsstjóri þjónustu- og samskiptasviðs SORPU, Ísól Ómarsdóttir áhættu- og verkefnastjóri umbreytinga hjá SORPU, Birkir Rútsson deildarstjóri gatnadeildar á umhverfissviði Kópavogsbæjar, Guðmundur Benedikt Friðriksson skrifstofustjóri á skrifstofu umhverfisgæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, Friðrik Klingbeil Gunnarsson verkefnastjóri á skrifstofu umhverfisgæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, Valgeir Páll Björnsson verkefnastjóri hjá Sorpu, Tómas G. Gíslason fyrrverandi umhverfisstjóri Mosfellsbæjar og Katrín Dóra Þorsteinsdóttir, starfandi leiðtogi umhverfis og framkvæmda hjá Mosfellsbæ.