Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar hlaut Íslensku menntaverðlaunin
Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar hlaut Íslensku menntaverðlaunin 2025 fyrir framúrskarandi skólastarf sem þykir afar metnaðarfullt og árangursríkt. Verðlaunin voru afhent á Bessastöðum þann 4. nóvember við hátíðlega athöfn en voru gerð opinber í gærkvöldi. Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum; fyrir framúrskarandi skóla- eða menntaumbótastarf, kennslu, þróunarverkefni, iðn- og verkmenntun, auk sérstakra hvatningarverðlauna.
Eftirsótt hljómsveit í sýningar og viðburði
Árangur Skólahljómsveitar Vesturbæjar og Miðbæjar þykir einstakur og samstarf við hana eftirsótt. Hún hefur komið fram í sýningum í Borgarleikhúsinu, með Íslenska dansflokknum, á Myrkum músíkdögum, í sjónvarpi, á fjölmörgum hljómleikum og við ýmsa viðburði, auk þess að heimsækja dvalarheimili aldraðra, svo fátt eitt sé nefnt. Síðustu ár hefur hátt hlutfall nemenda í hljómsveitinni haldið áfram tónlistarnámi.
Markmið skólahljómsveitarinnar er að búa til vettvang fyrir börn með áhuga á tónlist til að vinna saman að tónlistarsköpun og tónlistarflutningi. Tónlistarval er bæði fjölbreytt og frumlegt og það á bara að vera gaman. Vinátta, virðing og traust er aðalsmerki hljómsveitarinnar.
Verðlauna þau sem þykja skara fram úr
Markmið verðlaunanna er að vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Að auki er veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr. Verðlaunin ná til leik-, grunn- og framhaldsskólastigs, sem og til listnáms og félags- og tómstundastarfs.
Verðlaun fyrir framúrskarandi kennslu fékk Örvar Rafn Hlíðdal, íþróttakennari við Flóaskóla, fyrir framúrskarandi árangur í starfi. Verðlaun í flokki þróunarverkefna fékk verkefnið Lítil skref á leið til læsis, samstarfsverkefni leikskólans Grænuvalla og Borgarhólsskóla á Húsavík um málörvun og læsi. Verðlaun fyrir framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar fékk Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum sem hefur á undanförnum árum markað sér sterka stöðu í kennslu málm- og vélstjórnargreina.
Líta á fjölmenninguna sem styrkleika
Hvatningarverðlaunin komu í hlut Háaleitisskóla í Reykjanesbæ. Í skólanum eru sjö af hverjum tíu nemendum af erlendum uppruna og í skólanum eru töluð um 30 tungumál. Í skólanum hefur tekist að skapa einstaklega jákvæða skólamenningu meðal annars með því að líta á fjölmenninguna sem styrk skólans.
Myndir tók Mummi Lú.