Fimm tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna til Reykjavíkur
Fimm tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna eru til stofnanna, verkefna og kennara sem starfa hjá Reykjavíkurborg. Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar og Víkurskóli fengu tilnefningu í flokki framúrskarandi menntastofnana. Í flokki framúrskarandi kennslu voru þær Ingibjörg Jónasdóttir leikskólakennari í Rauðhól og Laufey Einarsdóttir grunnskólakennari í Sæmundarskóla tilnefndar. Ingibjörg fyrir brautryðjendastarf í leikskólakennslu og Laufey fyrir hugmynda- og árangursríka stærðfræðikennslu.
Öflug umgjörð fyrir kennslu í íslensku sem annars máls í Breiðholti
Þá er Íslenskubrú Breiðholts tilnefnd í flokki framúrskarandi þróunarverkefna en það er samstarfsverkefni allra fimm grunnskólanna í Breiðholti. Verkefnið snýst um að efla íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku. Í umsögn sem fylgdi tillögu að tilnefningu segir meðal annars: „Það er óhætt að segja að kennarar hafi látið hendur standa fram úr ermum og tókst þeim að útbúa svo eftir sé tekið öfluga umgjörð fyrir íslensku sem annað mál, farsælt jafningasamfélag þar sem kennarar þróa sína kennsluhætti áfram og eru einnig einstaklega jákvæðir fyrir því að deila öllum sínum afurðum, ekki bara innan hverfisins heldur á landsvísu.“
Ingibjörg er mikil fyrirmynd í leikskólastarfi
Ingibjörg Jónasdóttir er verkefnastjóri fjölmenningar í leikskólanum Rauðhól og segir í tilnefningunni að hún hafi einstaka hæfileika til að virkja fólk á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Í umsögn í einni tillögu að tilnefningunni segir meðal annars: „Inga er mikil fyrirmynd í faglegri forystu innan leikskólastarfs. Hún er afar lærdómsfús og sækist eftir því að fá nema í vettvangsnám til sín, þar sem hún nýtur þess að tengjast nýjustu fræðum og þróa sig áfram í gegnum samtal og samvinnu.“
Laufey hefur einstakt lag á stærðfræðikennslu
Laufey Einarsdóttir stærðfræðikennari í Sæmundarskóla þykir einstaklega lagin við að tengja stærðfræði við sköpun og nemendur fá tækifæri til að beita skapandi aðferðum og listfengi við úrlausn verkefna. Hún nær með einstökum hætti til nemenda og kennarar sækjast í að vinna með henni. Í umsögn í einni tillögu að tilnefningunni segir meðal annars: „Metnaður Laufeyjar og fagmennska er slík að hún hefur ekki einungis náð að sá fræi metnaðar og áhuga hjá nemendum heldur teymir hún með sér aðra kennara skólans.“
Skólahljómsveitin er eftirsótt í samstarf með listafólki
Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar sem fær tilnefningu í flokki framúrskarandi menntastofnana fyrir metnaðarfullt og árangursríkt tónlistarstarf sem unnið er af elju og fagmennsku í þágu barna. Hljómsveitin hefur spilað í sýningum, sjónvarpi og með þekktu tónlistarfólki og þykir samstarf við hana eftirsótt. Um tilnefninguna segir meðal annars: „Sem dæmi má nefna að á síðasta skólaári lék sveitin í uppsetningu Borgarleikhússins á leikverkinu Fíasól gefst aldrei upp, í verðlaunadansverki Íslenska dansflokksins Hringir Orfeusar og annað slúður, flutti frumsamið tónverk á opnunarhátíð Myrkra Músíkdaga í upphafi árs ásamt því að flytja alla fyrstu hljómplötu Benna Hemm Hemm ásamt söngvaranum og kór á stórtónleikum í Háskólabíó á vordögum. Hljómsveitin hefur þar að auki komið fram í sjónvarpsþætti Ríkissjónvarpsins Vikan með Gísla Marteini, ásamt framkomu á tónleikum í Laugardalshöll með hljómsveitinni Sigur Rós árið 2022.“
Unglingaskóli með heildstæð og þverfagleg verkefni
Víkurskóli sem einnig fær tilnefningu í flokki framúrskarandi menntastofnana fyrir öflugt og metnaðarfullt þróunarstarf með áherslu á nýsköpun, hönnunarhugsun, samþættingu og leiðsagnarnám. Skólinn er nýr skóli á unglingastigi og þar fást nemendur fást við mörg heildstæð og þverfagleg viðfangsefni þar sem margar námsgreinar koma við sögu. Um tilnefninguna segir meðal annars: „List- og verkgreinar eru kenndar í öllum árgöngum og nemendur fá fleiri stundir í þeim en viðmiðunarstundaskrá segir til um. Þetta hefur skilað sér í fjölbreyttum og dýrmætum verkefnum, þar á meðal í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur þar sem nemendur hafa bæði sýnt eigin verk og sinnt sýningarstjórn. Þá hefur Víkurskóli verið leiðandi í þróun leiðsagnarnáms og er einn af þekkingarskólum borgarinnar á því sviði. Samstarf við foreldra þykir um margt til fyrirmyndar.“
Þetta er í sjötta skipti sem verðlaunin eru veitt eftir að þau voru endurreist 2020. Tilnefnt var í fjórum flokkum og voru alls 14 kennarar, verkefni og stofnanir tilnefndar.
Á vef Samtaka áhugafólks um skólaþróun má lesa um allar tilnefningarnar.