Séruppdrættir byggingarfulltrúa aðgengilegir rafrænt

Rúmlega þriggja ára átaksverkefni við skönnun og birtingu séruppdrátta byggingarfulltrúa er nú lokið. Verkefnið fól í sér að gera raflagna-, burðarþols- og lagnateikningar, ásamt öðrum séruppdráttum sem voru á pappír, aðgengileg á vefnum fyrir almenning og fagaðila.
Alls voru um 700.000 teikningar skannaðar og skráðar. Sá hluti verkefnisins sem snéri að skönnun og pökkun var boðin út. Gagnavarslan var með lægsta tilboðið og gekk sú vinna vel.
Verkefnið tók um tvö ár í skönnun og lengri tíma í skráningu. Unnið var markvisst að því að bæta skráningu með áherslu á nákvæmni, sem og að leysa tæknileg vandamál tengd gagnagrunnum.
Með verkefninu hefur verið tryggt að mikilvægar upplýsingar séu nú aðgengilegar á rafrænan hátt í gegnum borgarvefsjá en áður var einungis hægt að nálgast séruppdrætti í þjónustuveri Reykjavíkurborgar og Borgarskjalasafni.
Áhrif verkefnisins
Með vinnunni hefur Reykjavíkurborg stigið stórt skref í stafrænni þróun og bættri þjónustu.
Almenningur og fagaðilar njóta betri þjónustu með aðgangi að gögnum allan sólarhringinn. Þá stuðlar aukið gagnsæi og betra aðgengi að hagkvæmari vinnslu mála ásamt því að spara tíma og fjármagn. Þjónustuver hefur einnig meira svigrúm til að sinna öðrum verkefnum.
Hægt er að skoða séruppdrætti hér á vefnum í gegnum borgarvefsjá. Borgarvefsjá er tengd teikningavef sem býður upp á fleiri leitarmöguleika í öllu teikningasafni Reykjavíkurborgar.