Samræmdur opnunartími leikskóla í Reykjavík tekur gildi í haust

Mynd tekin í garðinum við Fálkaborg.

Frá og með 1. september verður opnunartími allra borgarrekinna leikskóla frá 07:30 til 16:30. Það er í samræmi við breytingu á reglum um leikskólaþjónustu sem samþykkt var í borgarráði þann 5.júní.

Þjónustan lítið nýtt

Fram til þessa hafa fimm leikskólar í borginni boðið upp á lengri dvalartíma, allt til klukkan 17:00, fyrir foreldra sem þess þurfa. Nýting á þessu úrræði hefur hins vegar verið afar lítil og í vor nýtti aðeins eitt barn sér þessa þjónustu. Í ljósi þessarar þróunar og áskorana við mönnun leikskóla telja borgaryfirvöld breytinguna bæði skynsamlega og nauðsynlega.

Fulltrúar leikskólastjóra og starfsmanna í skóla- og frístundaráði fagna breytingunni og hafa bent á að erfitt hafi reynst að halda úti starfsemi til kl. 17:00. Fulltrúi foreldra í ráðinu lagði ekki fram andmæli gegn breytingunni, enda hefur nýting verið lítil og kostnaður við úrræðið töluverður.

Nánar má lesa um breytinguna í fundargerð borgarráðs undir lið númer 18.