Samið um lagningu skíðagöngubrauta á Austurheiðum og Rauðavatni
Skrifað var undir samning í dag við Icebike Adventures, um styrkveitingu vegna lagningar skíðagöngubrauta á Austurheiðum og Rauðavatni.
Samningurinn, sem er til tveggja ára, var samþykktur í borgarráði í dag og undirritaður við Rauðavatn. Skúli Helgason, formaður menningar- og íþróttaráðs Reykjavíkur, skrifaði undir fyrir hönd Reykjavíkurborgar, en Ásta Briem framkvæmdastjóri, fyrir hönd Icebike Adventures.
Markmiðið með samningnum er að tryggja áfram öflugt samstarf við fyrirtækið Icebike Adventures, sem stendur að baki Sporinu, um lagningu gönguskíðaspora á svæðunum þegar veður og aðstæður leyfa. Með því er leitast við að stuðla að bættri lýðheilsu íbúa með aukinni hreyfingu og útiveru í anda lýðheilsustefnu borgarinnar og stefnu í íþróttamálum.
Brautir fyrir byrjendur og lengra komin
Magne Kvam, hönnuður brautanna, segir að svæðin sem um ræðir séu algjör paradís til útivistar. Á Hólmsheiði skapar skógurinn gott skjól sem eykur notagildi og bætir upplifunina. Markmiðið með Sporinu er að skapa aðstæður fyrir sem fjölbreyttastan hóp fólks til gönguskíðaiðkunar og eru brautirnar hannaðar til þess að henta bæði byrjendum og reyndara skíðafólki. Mikil áhersla er lögð á að skapa fjölskylduvæn, aðgengileg og skemmtileg svæði til útivistar og á komandi vetri má búast við spennandi nýjungum.
Upplýsingar um hvar og hvenær gönguskíðaspor eru lögð má nálgast á fésbókarsíðu Sporsins og á upplýsingasíðu Reykjavíkurborgar um gönguskíðaspor á höfuðborgarsvæðinu.