Borgarráð - Fundur nr. 5798

Borgarráð

Ár 2025, fimmtudaginn 16. október, var haldinn 5798. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:04. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Helgason. Einnig sat fundinn áheyrnarfulltrúinn Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Eiríkur Búi Halldórsson, Heimir Snær Guðmundsson, Róbert Marshall og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Dís Sigurgeirsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. október 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 1. október 2025 varðandi kynningu á drögum að borgarhönnunarstefnu Reykjavíkurborgar í samráðsgátt, ásamt fylgiskjölum.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Guðbjörgu Lilju Erlendsdóttur og Rebekku Guðmundsdóttur sem taka sæti með rafrænum hætti. USK22100027

    -    Kl. 09:05 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum.
    -    Kl. 09:06 tekur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það eru tímamót að kynna loksins fyrstu borgarhönnunarstefnu Reykjavíkur sem er nú í samráðsgátt. Við fögnum þessu skrefi. Stefnan er sett fram til að bæta gæði í uppbyggingu og stuðla að grænna og heilnæmara umhverfi fyrir íbúa Reykjavíkur. Lögð er rík áhersla á hvernig byggingar mæta umhverfi sínu og skapa þar með ramma í kringum almenningsrýmin í borginni. Sömuleiðis á birtu, hljóðvist og áhrif borgarhönnunar á umhverfi sitt. Markmiðið er að uppbygging og þróun borgarinnar stuðli að vellíðan íbúa og að þróunin sé á þeirra forsendum. Jafnframt getur stefnan stutt við aukna skilvirkni í skipulagsgerð með meiri skýrleika.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Vinna við borgarhönnunarstefnu var sett í gang upphafi kjörtímabilsins og á að hafa það að markmiði að tryggja gæði í húsnæðisuppbyggingu í borginni. Leggja átti áherslu á að tryggja betri birtuskilyrði í íbúðum, vanda betur samspil húsnæðis og grænna svæða og bæta hljóðvist og aðra umgjörð í hverfum borgarinnar. Borgarhönnunarstefna á að vera leiðarljós fyrir uppbyggingaraðila og hraða skipulagsferlinu enda séu sjónarmið borgarinnar um fallega og heilnæma byggð skýr frá upphafi. Benda má á eitt og annað sem getur orkað tvímælis á sumum stöðum í borginni sér í lagi það sem snýr að bílastæðum og hönnun gatna. Stefnan þarf að vera raunhæf og taka mið af raunverulegum þörfum íbúa, aðgengi snjómoksturstækja og sorphirðu svo fátt eitt sé nefnt. Framsókn styður að stefnan fari í umsagnarferli hjá almenningi.

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Viðreisnar fagnar að tilbúin sé heildstæð stefna borgarinnar um gæði og form byggðar. Stefna er leiðarvísir fyrir öll sem vinna að skipulagi og hönnun. Viðreisn fagnar því að lögð sé áhersla á að þróun sé á forsendum íbúa, velferðar og hamingju þeirra. Viðreisn hefur sérstaklega lagt áherslu á einfaldar og skýrar leiðbeiningar um borgarhönnun með gæði í forgrunni. Eins er ánægjulegt að lögð sé áhersla á gróðursælar götur með breiðum gangstéttum, hjólastígum og öruggum akstursgötum.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. október 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. október 2025, á auglýsingu á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 10 og 12 við Holtsgötu og nr. 16 við Brekkustíg, ásamt fylgiskjölum.

    -    Kl. 9:46 tekur Helga Þórðardóttir sæti á fundinum.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK25070082

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ný skipulagstillaga felur í sér jákvæðar breytingar sem fela í sér minna byggingarmagn, fækkun íbúða úr 15 í 11, aukinn gróður og greinilegra uppbrot á milli húsanna. Samþykkt er að setja tillöguna í auglýsingu og kalla eftir sjónarmiðum og athugasemdum. Bærinn Sæmundarhlíð stóð líklega þar sem nú er baklóð hússins Holtsgata 12 og nafnið yfirfærðist svo á nýja húsið sem reis við Holtsgötu 10. Heimild er fyrir niðurrifi á húsi við Holtsgötu 10 og niðurrifsheimildin hefur legið fyrir í lengri tíð. Húsið hefur með tímanum verið stækkað og innra fyrirkomulagi þess breytt, ásamt því að gerðar hafa verið veigamiklar útlitsbreytingar sem gera húsið óþekkjanlegt frá upprunalegri mynd. Samkvæmt húsakönnun hefur húsið miðlungs varðveislugildi. Skipulagið hefur verið í vinnslu í 11 ár. Það er ábyrgðarhluti að láta mál velkjast um í lengri tíð og mikilvægt að ljúka þessu máli á faglegum grunni. Skipulagið hefur tekið verulegum breytingum til batnaðar á þessum tíma þar sem mætt hefur verið sjónarmiðum um samfellu í byggðarmynstri sem og sjónarmiðum í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér reyna borgarfulltrúar meirihlutans enn og aftur að rífa eitt af elstu húsum borgarinnar, Sæmundarhlíð, til að byggja 11 íbúða blokk án bílastæða sem kastar stórum skugga á sameiginlegan garð nágrannana í stað 15 íbúða blokkarinnar sem var fyrst lagt upp. Húsið lenti í veggjatítlu fyrir 20 árum og á þeim forsendum gerði húsfriðunarnefnd þáverandi ekki athugasemd við niðurrif. Húsið var þó lagað og fólk búið þar síðan. Árið 2021 mat Borgarsögusafn Sæmundarhlíð hafa hátt varðveislugildi í húsakönnun sinni einkum vegna menningarsögulegs gildis sem hluti af elstu byggð á svæðinu. Húsið er arftaki torfbæjar með sama nafni og tilheyrir timburhúsabyggð sem reis í Vesturbænum í upphafi 20. aldar. Saga hússins er því nátengd upphafi og þróun fyrstu byggðar á svæðinu og mikilvægur vitnisburður þeirrar sögu. Sæmundarhlíð er hluti af byggðamynstri sem er eitt af sterkum einkennum Vesturbæjarins og endurspegla þau byggingarskeið eða uppbyggingartímabil sem elstu hverfi borgarinnar hafa gengið í gegnum. Gamli Vesturbærinn nýtur hverfisverndar og verða afar sterk rök að liggja fyrir ef afmá á úr götumyndinni þessi fáu hús sem enn standa frá árdögum borgarinnar. Því ógilti úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fyrri deiliskipulagsbreytinguna. Skeytingarleysi borgarstjórnarmeirihlutans gagnvart fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar vekur furðu en varpar ljósi á viðhorfin og vinnubrögðin sem hér líðast.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn situr hjá við afgreiðslu málsins og lýsir yfir áhyggjum af því að úrskurðarnefnd umhverfis- og skipulagsmála muni hafna ákvörðun um þessa uppbyggingu. Þá eru einnig of fá bílastæði sem fylgja fyrirhugaðri uppbyggingu.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. október 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. október 2025 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Háskólans í Reykjavík vegna Borgarlínu og frekari uppbyggingar á svæði 1a og 1b, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SN220056

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að stækkunarmöguleikar HR aukist með breyttu skipulagi en gagnrýna að ekki sé tekið strax á umferðarmálum á Nauthólsvegi með því að koma fyrir sérakrein fyrir Strætó sem er hagkvæm lausn sem hægt væri að koma í gagnið fljótlega í stað þess að bíða í fleiri ár eftir að fyrsta lota Borgarlínu kemst í gagnið.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. október 2025, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að hefja innkaupaferli vegna framkvæmda við uppsetningu hjólaskápa við Laugalækjarskóla, Hvassaleitisskóla og Húsaskóla, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK25100193

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. október 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita Vesturporti (Port Productions ehf) vilyrði fyrir atvinnuhúsalóð í Gufunesi á svæði 2, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK25100200

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. október 2025, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að hefja söluferli á húsnæði Reykjavíkurborgar að Hafnarstræti 16, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Óla Jóni Hertervig sem tekur sæti með rafrænum hætti. USK25100082

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja að eignin sé seld en leggja áherslu á að borgin leysi aðstöðumál með SÍM í kjölfarið.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Framsóknar samþykkir að húsnæðið verði selt en leggur áherslu á uppbyggilegt og gott samstarf við SÍM haldi áfram.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. október 2025, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að hefja söluferli á húsnæði Reykjavíkurborgar að Bergþórugötu 20, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt. 
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Óla Jóni Hertervig sem tekur sæti með rafrænum hætti. USK25100083

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Andrými sinnir mikilvægri starfsemi og telja samstarfsflokkarnir eðlilegt og sanngjarnt að gefa félaginu svigrúm og aðstoð við að finna nýtt húsnæði.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks styðja að eignin sé seld en telja ekki rétt að selja hana með óhagstæðum leigusamningi við Andrými (142.000 kr. á mánuði fyrir 131 fermetra hús í miðborginni). Rétt væri að losa eignina undan leigusamningi og selja hana án hans.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Framsóknar styður að þetta hús verði selt en undrast að samningi við Andrými sé ekki sagt upp áður en húsið er selt. Það hefur áhrif á söluverð hússins að kaupandi þurfi að taka yfir leigusamning þar sem leigan er líklega undir 150 þúsund krónum á mánuði vegna styrks borgarinnar til félagasamtakanna Andrýmis. Uppsagnarákvæði leigusamningsins kveða á um sex mánaða uppsagnarfrest og því er ljóst að kaupandi yrði af leigutekjum í hálft ár. Kauptilboð munu eðli máls samkvæmt taka mið af því tekjutapi og Reykjavíkurborg fá lægra verð fyrir húsið.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. október 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að tilnefna Daníel Gauta Georgsson og Sigrúnu Ástu Einarsdóttur sem fulltrúa Reykjavíkurborgar í skólanefnd Borgarholtsskóla 2025-2029, sbr. hjálagða beiðni mennta- og barnamálaráðuneytisins. Þess er óskað að Daníel Gauti Georgsson verði skipaður sem aðalfulltrúi í nefndinni og að Sigrún Ásta Einarsdóttir verði skipuð varafulltrúi.

    Samþykkt. MSS25060124

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, 14. október 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að tilnefna Ingvar Sverrisson, Magneu Gná Jóhannsdóttur borgarfulltrúa, Andreu Helgadóttur borgarfulltrúa og Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur borgarfulltrúa sem fulltrúa Reykjavíkurborgar í skólanefnd Fjölbrautaskólans í Breiðholti 2025-2029, sbr. hjálagða beiðni mennta- og barnamálaráðuneytisins. Þess er óskað að Ingvar Sverrisson og Magnea Gná Jóhannsdóttir verði skipuð sem aðalfulltrúar í nefndinni og Andrea Helgadóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verði skipuð varafulltrúar.

    Samþykkt. MSS25060124

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, 14. október 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að tilnefna Katrínu M Guðjónsdóttur, Þorvald Daníelsson, Olgu Margréti Kristínardóttur og Stefán Pálsson sem fulltrúa Reykjavíkurborgar í skólanefnd Menntaskólans við Hamrahlíð 2025-2029, sbr. hjálagða beiðni mennta- og barnamálaráðuneytisins. Þess er óskað að Katrín M. Guðjónsdóttir og Þorvaldur Daníelsson verði skipuð sem aðalfulltrúar í nefndinni og að Olga Margrét Kristínardóttir og Stefán Pálsson verði skipuð varafulltrúar.

    Samþykkt. MSS25060124

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, 14. október 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að tilnefna Sigrúnu Einarsdóttur, Tryggva Másson, Viktor Orra Valgarðsson og Diljá Ámundadóttur Zoëga sem fulltrúa Reykjavíkurborgar í skólanefnd Kvennaskólans í Reykjavík 2025-2029, sbr. hjálagða beiðni mennta- og barnamálaráðuneytisins. Þess er óskað að Sigrún Einarsdóttir og Tryggvi Másson verði skipuð sem aðalfulltrúar í nefndinni og að Viktor Orri Valgarðsson og Diljá Ámundadóttir Zoëga verði skipuð varafulltrúar.

    Samþykkt. MSS25060124

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 13. október 2025, varðandi umsögn Reykjavíkur um tillögu til þingsályktunar um borgarstefnu 2025-2040, ásamt fylgiskjölum. MSS25090122

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. október 2025, varðandi leiðbeiningar til stjórnenda vegna kvennaverkfalls sem er boðað föstudaginn 24. október 2025, ásamt fylgiskjölum. MSS25100028

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað að árið 1975 skyldi sérstaklega helgað málefnum kvenna. Í upphafi árs 1975 tóku íslensk kvennasamtök höndum saman til að skipuleggja aðgerðir ársins og héldu meðal annars fjölsótta ráðstefnu í júní þar sem staða og kjör kvenna voru rædd og fjölmargar ályktanir og tillögur samþykktar. Meðal þeirra var tillaga frá Rauðsokkahreyfingunni þess efnis að konur tækju sér frí frá störfum á degi Sameinuðu þjóðanna, þann 24. október. 50 árum síðar er baráttunni ekki lokið og efnt til viðburða og samstöðu á þessum degi. Reykjavíkurborg mun ekki líta á fjarvistir kvenna og kvára vegna þátttöku í kvennaverkfalli í samráði við stjórnanda, sem óréttmætar né verður dregið af launum vegna þeirra.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gagnrýna að vetrarleyfi grunnskóla Reykjavíkur hefjist á 50 ára afmæli kvennafrídagsins. Mun stór hluti kvenna verja deginum við að annast börn sín sem ekki sækja skóla þennan dag. Hefðu fulltrúarnir talið að meirihluti, sem leiddur er af fimm konum, myndi gæta þess að konur sætu ekki fastar við hefðbundin kvennastörf á þessum degi en kvennafrídaginn ber upp á ári hverju 24. október.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Skipulagning kvennaverkfallsins er ekki í höndum Reykjavíkurborgar. Samstarfsflokkarnir taka undir hvatninguna um að konur og kvár leggi niður launuð og ólaunuð störf þann 24. október.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. október 2025, varðandi erindisbréf starfshóps vegna áframhaldandi vinnu við fyrirhugaða uppbyggingu fjölnota íþróttahúss að Hlíðarenda, ásamt fylgiskjölum. MSS24010134

    Fylgigögn

  15. Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör fyrir A-hluta Reykjavíkurborgar tímabilið janúar-ágúst 2025, dags. 16. október 2025, ásamt fylgiskjölum.

    Halldóra Káradóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS25050057

  16. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 13. október, sbr. samþykkt menningar- og íþróttaráðs frá 10. október 2025 á samningsdrögum við Icebike – Sporið um lagningu skíðagöngubrauta á Austurheiðum og á Rauðavatni, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Steinþór Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MIR25100003

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 9. október 2025, sbr. samþykkt stafræns ráðs frá 8. október 2025 á heimild til að hefja verkefnið viðverukerfi – útboð, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óskar Jörgen Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON25090058

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 9. október 2025, sbr. samþykkt stafræns ráðs frá 8. október 2025 á heimild til að hefja þróun á verkefninu þjónusta SFS 0-6 ára, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óskar Jörgen Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON25050015

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 9. október 2025, sbr. samþykkt stafræns ráðs frá 8. október 2025 á heimild til að hefja útboðsferli og innleiðingu á verkefnastjórnunarkerfi fyrir umhverfis- og skipulagssvið, ásamt  fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óskar Jörgen Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti ÞON25040027

    Fylgigögn

  20. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 13. október 2025, um frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 (endurskoðun sveitarstjórnarlaga). MSS25090113

    Fylgigögn

  21. Samþykkt að taka á dagskrá og leggja fram dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-627/2025, dags. 15. október 2025.

  22. Lagt fram bréf endurskoðunarnefndar, dags. 13. október 2025, sbr. vísun endurskoðunarnefndar frá 13. október 2025 á úttekt Innri endurskoðunar og ráðgjafar á samningaviðræðum Reykjavíkurborgar við rekstraraðila og lóðarhafa bensínstöðvalóða, ásamt fylgiskjölum.

    Ingunn Ólafsdóttir, Kristín Henley Vilhjálmsdóttir og Víðir Smári Petersen taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Borgarfulltrúarnir Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Björn Gíslason, Friðjón R. Friðjónsson, Helgi Áss Grétarsson, Hjálmar Sveinsson, Kristinn Jón Ólafsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns,  Sara Björg Sigurðardóttir og Stefán Pálsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. IER25100003

    -     Kl. 12:44 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttur af fundinum og tekur sæti með rafrænum hætti.
    -     Kl. 12:50 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í skýrslu innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar kemur fram að þau markmið sem sett voru í upphafi um sjálfbæra þróun og fjölgun húsnæðis í Reykjavík hafi verið málefnaleg og í samræmi við skipulagsstefnu Reykjavíkur. Borgarráð tók í upphafi ákvarðanir á grundvelli fullnægjandi upplýsinga og skilgreindra markmiða sem borgarráð samþykkti sameiginlega þvert á alla flokka að skerpa á. Engin merki eru um brot á jafnræðisreglu eða ríkisaðstoð og að forminu til var samningsgerð lögmæt. Í framsetningu meginmarkmiðanna voru þó veikleikar að mati innri endurskoðunar og hefði átt að taka fleiri sjónarmið til skoðunar en gert var. Í skýrslunni koma fram tólf umbótatillögur sem borgarráð hefur vísað til viðeigandi sviða til að tryggja í framhaldinu gagnsæja og bætta stjórnsýslu. Eftir stendur að rammasamningarnir og samningaviðræðurnar um bensínstöðvalóðir voru og eru mikilvæg pólitísk aðgerð og sýn í ljósi áskorana í loftslagsmálum, markmiða um orkuskipti í samgöngum, skipulagningu sjálfbærrar byggðar og fjölgun íbúðarhúsnæðis á dýrmætum lóðum þar sem bensínstöðvar hafa verið um áratugaskeið.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka fyrir vandaða og ítarlega úttekt Innri endurskoðunar og ráðgjafar á samningaviðræðum um bensínstöðvalóðir. Úttektin dregur fram alvarlega gagnrýni á margvíslega þætti málsins. Hagsmunir borgarinnar þóttu ekki nægilega tryggðir og verulega skorti á greiningar og upplýsingagjöf til bæði borgarráðs og skipulagsráðs. Þá er uppi óvissa um möguleg brot á reglum um samkeppni og ríkisaðstoð sem mikilvægt verður að greina nánar áður en lengra er haldið. Fulltrúarnir undirstrika mikilvægi þess að úrbótatillögum Innri endurskoðunar og ráðgjafar verði fylgt eftir án tafar.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samningarnir um bensínstöðvalóðirnar voru gerðir á síðasta kjörtímabili og Framsókn kom ekki að þeim en fyrrverandi borgarstjóri, borgarfulltrúi Framsóknar, studdi eindregið að að innri endurskoðandi réðist í þessa úttekt. Borgarfulltrúi Framsóknar þakkar fyrir góða úttekt á málinu en telur mikilvægt að taka ábendingar innri endurskoðanda föstum tökum og tryggja vandaðri vinnubrögð í framtíðinni. Við lestur úttektarinnar kemur skýrt fram að áhættumeta hefði þurft þá ákvörðun að gera samninga við olíufélögin út frá heildarhagsmunum borgarinnar en ekki einvörðungu út frá markmiðum í loftslagsmálum. Þá bendir innri endurskoðandi á að meta hefði átt lagalega áhættu borgarinnar gagnvart nýjum uppbyggingarsamningum sem gátu falið í sér veruleg verðmæti út frá álitaefnum um jafnræði, ríkisaðstoð og samkeppni. Þá bendir innri endurskoðandi á að borgin hafi ekki fylgt eigin leikreglum samkvæmt samningunum varðandi tímafresti. Brýnt er að leiða til lykta útbótatillögur innri endurskoðanda enda eru til meðferðar í stjórnsýslu borgarinnar uppbyggingaráform á grundvelli þessara samninga.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur það jákvætt að bensínstöðvum fækki í borgarlandinu og að íbúðir og atvinnuhúsnæði rísi á lóðunum en hefur gagnrýnt fyrirkomulagið í kringum fyrirhugaða íbúðauppbyggingu þar sem olíufélög geta fengið mikinn fjárhagslegan hagnað vegna íbúðauppbyggingar. Hvað þetta varðar þá fagnar fulltrúi Sósíalista sérstaklega þeirri áherslu í umbótatillögum innri endurskoðanda sem snýr að því að rétt sé að mæla fyrir um í reglum borgarinnar að framkvæma eigi „hagrænt og fjárhagslegt mat á því hvaða verðmæti eru látin í té þegar samið er við lóðarhafa um aukna uppbyggingu á lóð [...] “.

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar þakkar innri endurskoðun fyrir góða skýrslu. Mikilvægt er að staðfest sé að gjörðir borgarinnar hafi verið löglegar. Bent er á að ýmislegt mátti betur fara og snýr það mest að skilgreiningum og betri skýrleika ásamt því að gera betur hvað varðar umgjörð upplýsinga. Einnig fagnar fulltrúi Viðreisnar umbótatillögum innri endurskoðunar og fagnar þar áherslu á utanaðkomandi ráðgjöf og utanumhald. Stór verkefni krefjast góðs utanumhalds og skýrleika og mikilvægt að borgin stilli framtíðarverkefnum þannig upp að um þau sé myndað öflugt teymi sem hefur bjargir hvað varðar stjórn, ráðgjöf og stuðning. Einnig þarf að tryggja gagnsæi og góða stjórnarhætti slíkra teyma eða samninganefnda. Fulltrúinn fagnar því að borgarstjórn hafi látið vinna skýrslu um málið og taki þannig af allan vafa um lögmæti vinnunnar.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 14. október 2025, varðandi úrbótatillögur Innri endurskoðunar og ráðgjafar vegna úttektar á samningaviðræðum Reykjavíkurborgar við rekstraraðila og lóðarhafa bensínstöðvalóða, ásamt fylgiskjölum. 
    Samþykkt. MSS25100071

    Fylgigögn

  24. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um minnisblað frá borgarlögmanni vegna málaflokks fatlaðs fólks, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. október 2025. 
    Samþykkt. MSS25100048

    Fylgigögn

  25. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úttekt innri endurskoðunar á veikindahlutföllum starfsmanna Reykjavíkurborg, sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. ágúst 2025. Einnig lögð fram umsögn Innri endurskoðunar og ráðgjafar, dags. 24. september 2025.
    Vísað til meðferðar innri endurskoðunar og ráðgjafar. MSS25080034

    Fylgigögn

  26. Lögð fram að nýju fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjárheimildir vegna breytinga á gatnamótum Höfðabakka við Bæjarháls, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. október 2025. 
    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. MSS25100046

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 9. október 2025. MSS25010007

    Fylgigögn

  28. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 9. október 2025. MSS25010008

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 24. september 2025. MSS25010029

    Fylgigögn

  30. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. október 2025.
    3. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS25010030

    Fylgigögn

  31. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls fjögur mál (MSS25010023, MSS25010021, MSS25040082, MSS25100047). MSS25090126

    Fylgigögn

  32. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS25090127

    Fylgigögn

  33. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Viðreisnar:

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur til eftirfarandi breytingu á tillögu um leikskóla sem lögð var fyrir borgarráð 2. október sl. Lagt er til að: 1. Skráning verði tekin upp, í upphafi hverrar annar, um vistunartíma í kringum frídaga s.s. dagana fyrir jól, milli hátíða, í dymbilviku, í vetrarfríum ásamt styttri föstudaga. Sveigjanleiki verði fyrir foreldra að staðfesta vistunartíma með 4ja vikna fyrirvara (eftir það fellur afsláttur niður, sjá lið 2. ). 2. Afsláttur fyrir ónýtt pláss í kringum frídaga og styttri föstudaga (sjá lið 1.) Ekki verði aukagjald fyrir foreldra sem þurfa fulla vistun. Afsláttur verði 4000 kr. fyrir hvern skráningardag. Ef enginn skráningardagur er nýttur fellur námsgjald niður í maí. 3. Engin breyting verði á vistunartíma eða opnunartíma. 4. Að tekið verði upp samræmt skipulag fyrir öll hverfi borgarinnar, fyrir vetrarfrí og starfsdaga fyrir grunn- og leikskóla. 5. Að leikskóladeginum verði skipt upp þannig að starfið í eftirmiðdaginn verði þróað í krakkafrístund, hreyfistund, listastund eða annað skapandi starf með börnum. Lagt er til að tillagan verði lögð fyrir stýrihóp um umgjörð leikskólastarfs til meðferðar. Tillagan mætir bæði þörfum foreldra og þörfum leikskólanna um bætt starfsumhverfi.

    Vísað til meðferðar stýrihóps um bættar náms- og starfsaðstæður í leikskólum. MSS25100095

  34. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokksins:

    Lagt er til að umhverfis- og skipulagssviði verði falið að ráðast í framkvæmdir á hundasvæði á Geirsnefi til þess að tryggja að hundar sleppi ekki út fyrir svæðið.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Vísað til meðferðar menningar- og íþróttasviðs. MSS25100096

    Fylgigögn

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokksins:

    Borgarfulltrúi Framsóknar óskar eftir upplýsingum um hvað Reykjavíkurborg verji árlega miklum fjármunum til túlkaþjónustu. Óskað er eftir árlegum heildarkostnaði síðustu fimm ára en einnig sundurliðað eftir sviðum borgarinnar.

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. MSS25100097

  36. Samþykkt að taka á dagskrá bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 16. október 2025, varðandi breytt fundadagatal borgarráðs fyrir árið 2025, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt. MSS22060038

    Fylgigögn

  37. Fram fer umræða um uppbyggingu hjá KR. MSS25100069

  38. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðs:

    Borgarráð samþykkir að fela borgarstjóra að ganga frá samkomulagi á milli Reykjavíkurborgar og Knattspyrnufélags Reykjavíkur um fjárstyrk vegna endurbyggingar keppnisvallar í Frostaskjóli. Samkomulagið er með fyrirvara um samþykki borgarráðs.

    Samþykkt. MSS25100069

  39. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðs:

    Lagt er til að fela umhverfis- og skipulagssviði að taka út ágalla á framkvæmdum við Vesturbæjarlaug á árinu sem hafa leitt til þess að í þrígang hefur þurft að loka lauginni um lengri eða skemmri tíma eftir vinnu við endurbætur og viðhald á lauginni í sumar. Einnig er sviðinu falið að finna farsælustu leiðir til að tryggja að lokaáfangi framkvæmda gangi hratt og örugglega fyrir sig svo ekki þurfi að koma til frekari lokana. Að lokinni úttekt verði borgarlögmanni eftir atvikum falið að leggja mat á réttarstöðu Reykjavíkurborgar gagnvart framkvæmdaaðilum.

    Samþykkt. MSS25100113

Fundi slitið kl. 14:22

Líf Magneudóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Einar Þorsteinsson Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 16.10.2025 - prentvæn útgáfa