Rauð viðvörun- ýmsum starfsstöðum lokað

Ýmsir starfsstaðir borgarinnar hafa verið lokaðir vegna rauðrar veðurviðvörunar. Veðrið gengur niður eftir hádegi og sums staðar hefur verið ákveðið hvenær verður opnað á ný.
Rauð viðvörun hefur verið gefin út og gildir til klukkan 13:00 í dag, fimmtudaginn 6. febrúar.
FÓLK ER HVATT TIL HALDA SIG HEIMA Á MEÐAN ÓVEÐRIÐ GENGUR YFIR OG VERA EKKI Á FERÐINNI AÐ NAUÐSYNJALAUSU.
Röskun á skóla- og frístundastarfi í dag, fimmtudaginn 6. febrúar
Röskun var á skóla- og frístundastarfi í dag. Grunnskólar, leikskólar og frístundaheimili verða þó ekki lokuð og verða með lágmarksmönnun. Í ítrustu neyð geta börn komið í skóla og frístundaheimili en þá þarf að tilkynna skólastjórnendum og stjórnendur frístundaheimila um komu barns með tölvupósti.
Lokað í afgreiðslu þjónustuvers til klukkan 13
Vegna veðurofsans er lokað í afgreiðslu þjónustuversins í Höfðatorgi og í Ráðhúsi til klukkan 13 í dag. Þjónusturáðgjafar verða þó til aðstoðar eins og venjulega í síma 411-1111 og í netspjalli. Eins er hægt að senda línu á upplysingar@reykjavik.is
Starfsstöðum menningar- og íþróttasviðs lokað
Allir starfsstaðir menningar- og íþróttasviðs eru lokaðir að minnsta kosti til klukkan 13:00. Starfsstaðir MÍR eru Sundlaugar Reykjavíkur, Ylströnd, Borgarbókasafn, Borgarsögusafn, Listasafn Reykjavíkur, Hitt húsið, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, Skíðasvæðin í borginni og Bláfjöll. Opnanir hafa verið ákveðnar á eftirfarandi starfsstöðum:
Fjölskyldu- og húsdýragarður: 13:30
Árbæjarlaug: 13:30
Vesturbæjarlaug: 13:30
Laugardalslaug: 13:30
Dalslaug: 14:00
Sundhöll Reykjavíkur: 14:00
Klébergslaug: 15:00
Breiðholtslaug: Stefna á að opna kl.13 ef veður leyfir.
Ylströnd: 14:30
Önnur þjónusta á vegum borgarinnar gæti raskast í einhverjum tilfellum, ekki síst ef starfsfólk lendir í vandræðum með að koma sér á milli staða. Allra leiða verður hins vegar leitað til að takmarka áhrifin og þjónusta sem ekki má raskast verður í forgangi. Forstöðufólk í húsnæði fyrir fatlað fólk og neyðarskýlum, stjórnendur heimaþjónustu og annarrar viðkvæmrar þjónustu eru meðvitaðir um stöðuna og gera ráðstafanir eftir þörfum. Við hvetjum öll til að fara varlega og fylgjast vel með tilkynningum frá Almannavörnum, þar sem spár geta breyst hratt.
Vinsamlegast athugið:
- Mikilvægt er að festa lausamuni til þess að koma í veg fyrir foktjón.
- Mikilvægt er að losa frá niðurföllum til þess að koma í veg fyrir vatnstjón.
- Í neyðartilvikum hringið í 112.
- Neyðarsími Veitna er 516-6161.
- Einnig fylgist starfsfólk borgarinnar með ábendingavef: https://abendingar.reykjavik.is
- Fylgið fyrirmælum og uppfærslum frá yfirvöldum.
Fylgist með:
- Fréttum og uppfærslum á fréttamiðlum.
- Frekari upplýsingum á: https://www.vedur.is/vidvaranir/svaedi/rvk
- Færð á vegum: https://www.umferdin.is