Rannsókn á ferðavenjum háskólanema
Ný rannsókn á ferðavenjum háskólanema við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík er að fara af stað. Rannsóknin er á vegum Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og TØI – Transportøkonomisk institutt í Osló. Nemendur eru hvattir til þess að taka þátt.
Hægt að vinna 75.000 króna gjafabréf
Til þess að vera með þarf að hlaða niður appi sem fylgist með ferðamátum. Ef appið er í notkun allt rannsóknartímabilið fara þátttakendur í pott og fá tækifæri til að vinna 75.000 króna gjafabréf. Rannsóknin stendur yfir til 12. október 2025.
Appið sem notast er við heitir SPOR og er frá Motiontag en fyrirtækið sérhæfir sig í því að rekja ferðamáta og hefur verið notað í rannsóknum erlendis og af opinberum samgöngufyrirtækjum.
Rannsóknin er unnin af Reykjavíkurborg og tveimur alþjóðlegum samgönguverkefnum, AMIGOS og Pilot-verkefninu, sem eru í gangi hjá borginni. Rannsóknin er ætluð nemum í Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands og er tilgangurinn að skilja ferðavenjur háskólanema.
Persónuvernd tryggð
Nemendur þurfa að skrá sig til þátttöku. Nauðsynlegt er að stofna aðgang og í framhaldinu fá nemendur sendan hlekk til að sækja appið. Einstaka svör og staðsetningargögn verða hvorki birt né látin í hendur þriðja aðila. Öll svör og staðsetningargögn verða meðhöndluð með fullum trúnaði og ekki er undir neinum kringumstæðum hægt að rekja eða vinna úr söfnuðum gögnum einstakra aðila.
Gögnin verða vistuð að verkefnalokum til ársins 2027 og að hámarki í þrjú ár eftir að verkefnunum lýkur. Búið er að vinna gagnavinnslusamning milli aðila rannsóknarinnar í þeim tilgangi að tryggja öryggi við úrvinnslu persónuupplýsinga í samræmi við reglugerð um persónuvernd.
Ef spurningar vakna má hafa samband við Hönnuh Rós Sigurðardóttur Tobin verkefnastjóra í netfanginu hannah.ros.sigurdardottir.tobin@reykjavik.is.